138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:05]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú bregður svo við að skilningur okkar hv. þm. Atla Gíslasonar á ummælum hæstv. forsætisráðherra í þingræðu hennar í gær er gjörólíkur. Ég skildi hæstv. forsætisráðherra ekki þannig að hún væri að leggja til að farið yrði í lagabreytingar á þeim fáu dögum sem eftir eru á núverandi þingi og ég tel að þarna sé um mistúlkun á orðum hennar að ræða.

Ég tel hins vegar að hún hafi sent þingmannanefndinni ákveðin skilaboð um það hvernig hugsanlega mætti bregðast við þeim gagnrýnisatriðum sem komið hafa fram á málsmeðferðina og lúta m.a. að rétti þeirra einstaklinga sem núna er lagt til að verði ákærðir til þess að svara tilteknum skýrt afmörkuðum sakarefnum. (AtlG: Til þess þarf lagabreytingar.) Það hlýtur að vera í valdi þingmannanefndarinnar og það er ekkert í lögum um störf þingmannanefndarinnar sem kemur í veg fyrir að hún vinni sín störf með þeim hætti.