138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við stöndum nú frammi fyrir því að ákveða hvort Alþingi Íslendinga muni ákæra þrjá til fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð og stefna þeim fyrir landsdóm. Í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað hefur verið vísað til stjórnarskrárinnar, ýmissa lagagreina í lögum um ráðherraábyrgð, mannréttindaákvæða, almennra réttarfarsreglna og réttarfars.

Sakarefnin eru þung. Þau lúta öll að því að þeir ráðherrar sem taldir eru upp í ákæruályktun meiri hluta nefndarinnar hafi á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi brotið gegn lögum um ráðherraábyrgð og til vara gegn almennum hegningarlögum þar sem kveðið er á um að opinber starfsmaður sem gerist sekur um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu skuli sæta sektum eða fangelsi.

Þegar við nú tökum ákvörðun hvert fyrir sig um það hvort ákært skuli ber okkur að líta til margra þátta, bæði laga og málsmeðferðarreglna, hvort sakhæfisskilyrðum sé fullnægt og hvort meiri líkur séu á því en minni að sakfellt verði. Okkur ber að leita jafngrannt eftir hverju því sem leitt getur til sýknu sem og því sem leitt getur til sakfellingar.

Margir þeir sem hér hafa talað hafa vakið athygli á því að bæði málsmeðferðin sem og líkur á sakfellingu geti orkað tvímælis í tilvikum þeirra sem hér um ræðir, ekki síst í tilviki fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem sannarlega hafði engar embættisskyldur hvað þá heldur verkfæri í sínu ráðuneyti til þess að grípa til stjórnvaldsaðgerða á sviði efnahags og viðskipta. Fjármálaeftirlitið var á ábyrgð efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, Seðlabankinn á ábyrgð forsætisráðuneytisins og vandséð hvernig utanríkisráðherra hefði getað brugðist við með beinum aðgerðum á borð við þær sem nefndar eru í ákærunni, þ.e. að láta gera heildstæða og faglega greiningu á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir, draga úr stærð íslenska bankakerfisins, stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikninga sína eða flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi, nú eða að láta flytja Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag. Ekkert af þessu var á valdi eða verksviði utanríkisráðherra. (Gripið fram í.)

Fram hafa komið efasemdir frá málsmetandi lögfræðingum um sjálfa málsmeðferðina gagnvart þeim ákærðu. Almenn túlkun lögmanna og sérfræðinga er að þeir þingmenn sem greiða atkvæði með þingsályktunartillögu um ákæru á hendur einstaklingum séu í reynd í hlutverki saksóknara. Hins vegar hefur réttarstaða hinna ákærðu ekki verið réttarstaða sakborninga fram til þessa. Þau hafa hvergi veitt svör úr slíkri stöðu eða varið sig fyrir ákæru. Svörin sem þau veittu rannsóknarnefnd Alþingis á sínum tíma voru til að veita upplýsingar um málavöxtu og skýra afstöðu sína til þess sem gerðist, en það er allt önnur staða fyrir einstaklinga að vera í. Þetta atriði, frú forseti, tel ég að þurfi að hugsa mjög vel.

Ég verð að spyrja sjálfa mig áður en ég greiði atkvæði: Hefur það fólk sem til stendur að ákæra fengið fullan málsvarnarrétt? Er ég eða þingið að brjóta viðurkennd mannréttindi þessa fólks? Sé það ekki ljóst er þá ekki betra að bíða og kalla eftir því að málsmeðferð sú sem gildir nú á dögum gagnvart sakbornu fólki verði í heiðri höfð gagnvart þessum einstaklingum? Vissulega eru lög um landsdóm skýr varðandi málsmeðferðina en varla meina þau þinginu að iðka ýtrustu mannréttindi í jafnalvarlegu máli.

Hvað með réttlætið, þetta háleita hugtak sem svo margir nota þó illa og vanhugsað? Er réttlætinu fullnægt með því að draga þau Geir Haarde, Árna Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir landsdóm og leggja sök þeirra allra að jöfnu? Rannsóknarskýrsla Alþingis staðfestir að eftir árið 2006 var ekki hægt að koma í veg fyrir það sem gerðist í september 2008. Við vitum að þetta fólk kom inn á sviðið í lokaþætti þeirrar atburðarásar sem fór af stað við einkavæðingu bankanna og olli um síðir bankahruninu. Við vitum líka að í þessum hópi fyrrverandi ráðherra eru tveir sem bera ábyrgð á því sem gerðist fyrir árið 2006, fram að þeim tíma sem enn var hægt að bregðast við. Þar vísa ég þó einkum til Geirs H. Haardes sem var fjármálaráðherra 1998–2005 og forsætisráðherra á árunum 2006–2009. Skyldi ábyrgð hans ekki vera ríkari en þeirra sem gengu inn á sviðið þegar orðið var um seinan að afstýra því sem gerðist?

Ég hlýt líka að staldra við fund fyrrverandi forsætisráðherra með Gordon Brown þann 24. apríl 2008 þegar sá síðarnefndi bauð okkur Íslendingum að vera hluti af viðbúnaðaráætlun Evrópuríkja vegna óróleika á fjármálamörkuðum og boð hans var afþakkað með þeim orðum að við Íslendingar þyrftum ekki á slíkum viðbúnaði að halda, það sem við þyrftum væru frekari lánveitingar til bankanna. Þarna tel ég að hafi farið forgörðum mikilsvert tækifæri til að stemma á að ósi gagnvart því sem fram undan var.

Í þeirri umræðu sem hefur staðið síðustu daga hefur verið gripið til þess að tala um hraðakstur í fjármálakerfinu, en hverjir voru það sem gerðust sekir um hraðakstur? Hinir raunverulegu gerendur, fjárglæframennirnir sem létu greipar sópa um bankana og þeir stjórnmálamenn sem leyfðu hraðaksturinn, hönnuðu jafnvel vegakerfið fyrir þennan hraðakstur, þ.e. ráðamenn ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á árunum 2003–2007, þeir virðast ætla að sleppa. Ég er hér að tala um Davíð Oddsson forsætisráðherra frá 1991–2004 og seðlabankastjóra eftir 2005 og fram yfir hrun, Valgerði Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra á árunum 1999–2006, sem af stakri vankunnáttu einkavæddi bankana án þess að vita hvað hún var að gera, eins og hún viðurkenndi eftirminnilega í Kastljósþætti á dögunum, Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra á árunum 2004–2006. Já, ég er að tala um ýmsa. Sakir þessa fólks eru fyrndar í lagalegum skilningi. Landsdómur nær ekki til þess tíma sem orsaka hrunsins er að leita og þetta fólk verður aldrei dregið fyrir landsdóm.

Eru sakir þessa fólks fyrndar gagnvart almenningsálitinu í siðferðilegum og pólitískum skilningi? Mega þær fyrnast og er það réttlætanlegt að við ákærum aðra í þeirra stað, hengjum hugsanlega bakara fyrir smið?

Ég tel það fráleitt, frú forseti, að við getum skilið við þetta mál, hvort sem því lýkur með ákæru eða ekki, án þess að gera upp sakir við raunverulega gerendur í bankahruninu. Ég tel að Alþingi Íslendinga verði að samþykkja ályktun þar sem þeir einstaklingar eru víttir og átaldir þunglega sem allir vita að bera raunverulega ábyrgð í þessu máli. Það er það minnsta sem hægt er að gera til að ná fram einhverju sem kallast getur réttlæti í þessu máli. Verði slík tillaga ekki lögð fram af þeirri þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar milli umræðna mun ég sjálf bera fram slíka þingsályktunartillögu.

Frú forseti. Ég tel það skyldu okkar allra að íhuga þetta mál vel allt fram til þeirrar stundar að við greiðum atkvæði hér í þingsalnum um það hvort og þá hverja skuli ákæra. Ég blæs á þau rök að okkur beri að halda okkur við það sem kallað hefur verið niðurstaða þingmannanefndarinnar í þessu máli, það var engin niðurstaða í þingmannanefndinni um þennan þátt málsins, málið er samviskuspurning, samviskumál og samvisku sinni vísar maður ekki til þingnefndar. Nefndin er klofin í þrennt og þeir þingmenn hennar sem vilja ákæra hafa vikið frá meginniðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis. Í slíkri stöðu er óhugsandi að þingheimur geti sameinast um eina niðurstöðu. Þá tel ég líka óviðeigandi að vísa til tilfinninga nefndarmanna sem átelja þá sem ekki fella sig við afgreiðslu nefndarinnar fyrir að gera lítið úr nefndinni. Tilfinningar þingmanna eru fullkomið aukaatriði og geta aldrei vegið þyngra en mannréttindi og almannahagsmunir.

Það sem hér er í húfi eru grafalvarlegar spurningar og þungar ákærur sem varða samvisku okkar, heilindi, hugrekki og hlutverk okkar gagnvart almenningi og réttarfari í þessu landi. Alþingi Íslendinga hefur aldrei staðið í viðlíka sporum og þeim sem við nú stöndum í, að þurfa hugsanlega að beita ákæruvaldi. Við getum ekki falið okkur hvert á bak við annað í ákvörðun okkar heldur tökum við ákvörðun um ákæru hvert og eitt okkar með því atkvæði sem við greiðum þegar þar að kemur.

Ég vona, frú forseti, að við berum gæfu til þess að vanda okkur og láta sannleiksleit, réttsýni og ekki síst umhyggju fyrir lýðræði og almannahagsmunum stjórna gjörðum okkar við afgreiðslu þessa máls.