138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:14]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þá á ég ekki við að við eigum að láta þetta mál reka á reiðanum eða láta það fyrnast. Ég á einfaldlega við það sem hæstv. forsætisráðherra ræddi um hér í ræðu í gær, að vísa þessu til nefndar milli umræðna og fela þeirri nefnd að komast að niðurstöðu um málsmeðferðina og mannréttindaþáttinn varðandi málsmeðferðina.

Það sem ég vil leggja áherslu á er að við flýtum okkur ekki um of við að afgreiða þetta mál því að hér eru mjög þungar sakargiftir á ferðinni og við verðum auðvitað að láta mannréttindi og grundvallarhugtök ýmis konar sem lúta að réttindum sakborins fólks njóta vafans, a.m.k. að við flýtum okkur ekki um of og að sú nefnd sem tekur við málinu milli umræðna gefi sér tíma til að kanna þennan þátt gaumgæfilega.