138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson út í ákveðin atriði sem komu fram í ræðu hans. Nú veit ég að þingmaðurinn leggur mikla áherslu á það sem málsmetandi menn úti í bæ segja. Þess vegna hefði ég áhuga á að heyra frá honum og í ljósi þess að hv. þingmaður er líka löglærður: Hvað er það nákvæmlega í málsmeðferðinni hér, bæði það sem þegar hefur farið fram og það sem mun væntanlega fara fram fyrir landsdómi, í samanburði við málsmeðferð hins svokallaða Tamílamáls, sem gefur til kynna að Mannréttindadómstóllinn muni telja að brotið sé á mannréttindum væntanlega sakborninga?

Í grein sem ég skrifaði nýlega í Fréttablaðið geri ég ákveðinn samanburð á málsmeðferðinni í gegnum danska ríkisréttinn og síðan niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli danska ráðherrans Eriks Ninn-Hansens. Danska þingið skipaði rannsóknarrétt, sem var að mörgu leyti sambærilegur við rannsóknarnefnd Alþingis, til að rannsaka hvort einstaklingar innan stjórnkerfisins hefðu brotið lög um pólitíska flóttamenn og fjölskyldur þeirra. Ráðherra fékk afrit af yfirheyrslum en þær voru annars að mestu leyti opinberar. Ráðherra fékk einnig að hafa með sér lögfræðing og gat neitað að tjá sig til að bera ekki á sig sök. Sama gilti hér, en til viðbótar samþykkti Alþingi að ekki mætti byggja á yfirheyrslunum fyrir dómstólum.

Síðan var skýrsla rannsóknarréttarins tekin fyrir í þingskapanefnd danska þingsins og meiri hluti nefndarinnar, ekki allir nefndarmenn, samþykkti að stefna ráðherranum fyrir ríkisrétt. Þar komu ráðherrar ekki fyrir nefndina. Hér fengu ráðherrar tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri við þingmannanefndina.

Í kærunni til Mannréttindadómstóls Evrópu var m.a. kvartað undan óréttlátri málsmeðferð fyrir rannsóknarréttinum, að ríkisrétturinn hafi ekki verið óháður og óvilhallur dómstóll, að sakborningur hefði ekki fengið að leiða vitni fyrir dóminn, að heimilað hefði verið að leggja afrit yfirheyrslna fyrir rannsóknarréttinum fyrir ríkisréttinn, (Forseti hringir.) að meðferð málsins hefði haldið áfram þrátt fyrir slæmt heilsufar sakbornings og málinu ekki lokið innan hæfilegs tíma. (Forseti hringir.) Öllum þessum kæruatriðum var hins vegar vísað frá.