138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög áhugavert að það skuli vera orðið þannig hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, virðist vera orðin einhvers konar leiðtogi lífs hans.

Ég vil hins vegar benda þingmanninum á að í 14. gr. laga um verkefni og meðferð rannsóknarnefndar Alþingis, sem voru samþykkt 2008, kemur fram að ráðherra eða þeir sem mættu fyrir nefndina máttu hafa með sér lögmann á eigin kostnað. Það var skylda að mæta til skýrslutöku og svara spurningum en það átti hins vegar ekki við „ef einstaklingur skorast undan því að svara spurningu af þeirri ástæðu að ætla megi að í svari hans geti falist játning eða bending um að hann hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi honum siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni. Sama á við ef ætla má að svar hefði sömu afleiðingar fyrir einhvern þann sem tengist viðkomandi með þeim hætti sem segir í 1. og 2. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.“ Síðan var líka lögfest í 14. gr. að ekki mætti byggja á yfirheyrslunum fyrir landsdómi. Þetta var síðan eitt af þeim atriðum sem reyndi einmitt á í Tamílamálinu því þetta var ekki í dönsku meðferðinni, heldur máttu þeir nota yfirheyrslur sem voru teknir fyrir rannsóknarréttinum sem var sambærilegur og rannsóknarnefnd okkar fyrir ríkisréttinum. Við tókum hins vegar algjörlega fyrir það og tryggðum þar með betur stöðu hugsanlegra sakborninga.

Vegna þess að það kom ákveðinn hluti fram hérna í andsvari hjá hv. þm. Pétri Blöndal í gær þar sem hann fullyrti að í Danmörku hefðu ráðherrarnir haft réttarstöðu grunaðs manns. Þetta kom upp og var rætt á opnum fundi í háskólanum. Þar kom fram í máli skilst mér fyrrverandi yfirlögfræðings Alþingis að það hafi ekki verið þannig, heldur hafi þeir haft réttarstöðu vitnis. Ég bað sérstaklega um að þetta yrði athugað betur og það (Forseti hringir.) virðist vera og menn fullyrða það að þeir hafi haft réttarstöðu vitnis nákvæmlega sama og hér í málsmeðferðinni.