138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Nei, frú forseti, hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni sem var eiginlega veigamest, þ.e. hvað hann hefði gert, eins mikill spekingur og hann er, í þeirri stöðu ef hann hefði haft þá vitneskju sem við vitum núna að hæstv. ráðherrar höfðu. Það er nefnilega mjög mikilvægt, var eitthvað hægt að gera? Gátu menn gert eitthvað sem höfðu það fjöregg í höndunum að mega ekki segja frá? Hv. þingmaður veit að um leið og einhver segir frá stöðu bankanna þegar hún er svona slæm fara þeir á hausinn. Það veit hv. þingmaður, ég veit það.

Ef hann hefði sagt frá því, segjum í maí 2008, að staða bankanna væri sú sem hún var, hefðu þeir farið á hausinn og ef hann væri ráðherra mundum við kæra hann núna fyrir að hafa sett þá á hausinn.

Það er vandlifað í þessum heimi og ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann að ráðherrarnir sem hann vill ákæra, eins og mér heyrist, hafi gert eitthvað eða sleppt því að gera eitthvað sem hann, sem er mikill spekingur, hefði gert í staðinn? Hvað þá? Og hvaða afleiðingar hefði það haft?

Varðandi ábyrgðarleysið vill svo til að ég baðst afsökunar á Alþingi fyrir að hafa staðið að lagasetningu sem veitti heimild til að lána starfsmönnum til kaupa á hlutabréfum, alveg stórhættulegt fyrirbæri sem kemur frá Evrópusambandinu. Ég tók sem sagt ábyrgð á því að hafa gert það. Ég er ekki sammála því að enginn hafi tekið ábyrgð á sínum hlut, auk þess sem þeir ráðherrar sem hann sagði hafa hrökklast frá völdum buðu sig ekki fram, sennilega vegna þess að þeir tóku ábyrgð.