138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:43]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í gær heyrði ég mér til mikillar furðu hæstv. forsætisráðherra flytja varnarræðu fyrir ráðherra úr hrunstjórninni. Þessa ræðu lét ég sem vind um eyru þjóta. Mér fannst það minnkun fyrir ráðherrann að flytja ræðuna með tilliti til þess að hún sat sjálf í ríkisstjórninni sem hér um ræðir. Ekki nóg með það, heldur var hún ein af fjögurra manna fjármálaráði í ríkisstjórninni. Ég álít hana vanhæfa til að hafa skynsamlega skoðun á þessu máli.

Nú hef ég heyrt þessa ræðu endurflutta af öðrum hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar. Ráðherra sem ekki sat í síðustu ríkisstjórn. Mér bregður ansi mikið í brún og spyr: Er það rétt skilið hjá mér að rannsóknarnefnd þingsins hafi lagt fram rangar (Forseti hringir.) og illa rökstuddar ákærur á hendur saklausu fólki sem gat ekki hönd fyrir höfuð sér borið né þjóðarinnar?