138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil helst alltaf vera á staðnum þegar hæstv. ráðherra Árni Páll Árnason heldur ræðu því að hann fer svo frjálslega með að ég vil vera í viðbragðsstöðu til að leiðrétta eftir þörfum. En hæstv. ráðherra gengur reyndar stundum svo langt að manni finnst hann nánast vera í eigin heimi og þá minnir hann mig á söguna af manninum sem hélt að hann væri kráka. Það var mikið reynt að útskýra fyrir þessum manni að hann væri ekki kráka en það komu aldrei nein viðbrögð. Á endanum gáfust menn upp og fóru bara að krunka á manninn og hann krunkaði á móti og þá a.m.k. tókust einhver samskipti.

Ég ætla hins vegar að halda áfram að reyna að fást við hæstv. ráðherra. Hann má nefnilega eiga það, frú forseti, að hann er skemmtilegur í útúrsnúningum sínum. Hann hélt því fram áðan að vandamál Samfylkingarinnar og ábyrgð hennar lægi kannski ekki hvað síst í því að hún hefði vanmetið hvað hægt væri að snúa af braut þenslu. Ég held að óhætt sé að segja að enginn flokkur hafi komist í hálfkvisti við Samfylkinguna, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson benti reyndar á áðan, í þensluhvetjandi aðgerðum. (Forseti hringir.) Flokkurinn setti met í útgjaldaaukningu þegar hann komst loksins í ríkisstjórn og yfirbauð alla aðra flokka í skattalækkunum.