138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt ræðu í gær sem hefur greinilega farið fram hjá hv. þingmanni. Þess vegna ætla ég að fara yfir það sem ég ræddi um, þ.e. landsdóminn og umgjörðina um lögin.

Mikið hefur verið fjallað um fyrirkomulag landsdómsins. Gert er ráð fyrir því að meint brot verði ekki rannsakað áður en afstaða er tekin um það hvort mál skuli höfðað á hendur ráðherra. Þetta hefur verið gagnrýnt. Þingmannanefndin ræddi þessa ágalla á fyrirkomulaginu um landsdóm ítarlega í upphafi vinnu sinnar. Hún fékk m.a. álit margumræddra sérfræðinga. Þeir voru ekki allir sammála um hvaða áhrif þessir ágallar hefðu. Hins vegar er alveg ljóst að menn breyta ekki lögum afturvirkt, það telst ekki vera til fyrirmyndar.

Mín sannfæring er sú að allur málatilbúnaður stenst ekki skoðun að þessu leyti. Það er mín skoðun og kom m.a. skýrt fram í ræðu minni í gær. Ég held að komi til þess að þingsályktunartillagan verði samþykkt og það reyni á málið fyrir dómstólum muni það falla á forminu. Það eru þessi (Forseti hringir.) atriði sem gera það að verkum að málið fellur.