138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum nú tekið nokkurn tíma í þessa umræðu og ég verð að viðurkenna að þegar ég heyrði fyrst af niðurstöðum nefndarinnar sem sneru að viðkomandi ráðherrum og sérstaklega yfirlýsingar þeirra stjórnmálamanna sem studdu þær umsvifalaust án þess að hafa skoðað þær, fékk maður á tilfinninguna að hér væri því miður pólitík á ferð en ekki þau vinnubrögð sem við vildum sjá í þessu máli. Þá vísa ég í ummæli þingmanna Vinstri grænna sem öll eru þekkt og hafa komið skýrt fram í fjölmiðlum, t.d. ummæli um það sem ekki hafa verið aftur tekin að ef minnsti vafi leiki á sekt eigi að sækja fólk til saka fyrir dómstólum. Líka þau ummæli að hér sé um pólitísk réttarhöld að ræða og uppgjör við pólitíska hugmyndafræði. En kannski voru sterkustu ummælin höfð eftir hæstv. forsætisráðherra sem sagði að þetta væri gert til að friða almenning. Og hafi maður verið í einhverjum vafa um að þetta gæti verið grunnurinn að þessu hafa atburðir dagsins í dag og gærdagsins staðfest það.

Hv. þm. Atli Gíslason hefur hótað stjórnarslitum fái hann ekki sínu framgengt. Ég held að ekki sé hægt að orða það neitt öðruvísi. (AtlG: Þetta er rangt. Þú veist betur, þetta er rangt.) Hv. þingmaður getur þá í andsvari upplýst um hvað hann var að fara í ummælum sínum í tengslum við þetta mál. Það þýðir mjög lítið fyrir þá sem vilja ná sínu fram og hafa ekki getað fært fyrir því rök að koma hér upp, fullir vandlætingar, og segja að virðing Alþingis muni bíða hnekki ef þeir fái ekki sínu framgengt. Þeir sem þannig tala ættu í það minnsta ekki í sama orðinu að tala um í þessum stóli eða annars staðar að það sem skipti máli fyrir okkur sé að eiga hér samræður og fara málefnalega yfir hlutina og ræða okkur í gegnum þá sérstaklega þegar um stærri mál er að ræða. Það er algjörlega ljóst að þetta fer ekki saman. Ég vek athygli á því að hér er um nákvæmlega sömu hótanir að ræða og menn hafa svo gagnrýnt að hafi verið það sem kom þessari þjóð í ákveðinn vanda.

Það vekur líka athygli að nefndin klofnar, t.d. eru hv. þingmenn í Samfylkingunni sem vilja ekki að bankamálaráðherrann verði sóttur til saka fyrir mál sem snúa að hans ráðuneyti. Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það séu ekki rök til þess að sækja þetta fólk til saka og það sama á við um þann ágæta mann. En ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að þegar maður sá þetta áttaði maður sig á því að það gæti verið erfitt að útskýra þetta ef þessar hugmyndir næðu fram að ganga. Það eru engin fordæmi fyrir því, þó svo að bankahrunið hafi komið illa við margar þjóðir, að ráðamenn hafi verið sóttir til saka. Það verður örugglega erfitt að útskýra það fyrir fólki ef við förum þá leið en örugglega algjörlega útilokað að útskýra það fyrir fólki sem ekki þekkir til hér að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra séu sóttir til saka af þessu tilefni en bankamálaráðherra ekki. Sömuleiðis hefur það lítið verið rætt, ef menn vilja ræða þessi mál í rólegheitum og fara yfir þau, af hverju Samfylkingin treysti ekki sínum eigin ráðherra. Hvernig gat það gerst, ef það er rétt, að hæstv. fyrrverandi ráðherra var ekki upplýstur um mál sem sneru að honum beint þó svo að hann hefði átt að hafa tök á því, því að það er alveg ljóst að flokkur ráðherrans var með allar upplýsingar? Hvernig má það vera að slíkt gat gerst eins og tilgreint er í þingsályktunartillögu hv. þingmanna Magnúsar Orra Schrams og Oddnýjar Harðardóttur? Það er svolítið sérstakt og umhugsunarvert, virðulegi forseti.

Svo ég fari yfir það í þessari stuttu ræðu þá erum við ekki að vinna þetta mál eins og menn hafa kannski verið að líta til í Tamílamálinu í Danmörku sem oftar en ekki hefur verið farið yfir. Ég held að enginn geti haldið því fram með nokkurri sanngirni að það sé verið að vinna þetta mál með sambærilegum hætti. Það mál tók sjö ár, ef ég man rétt, frá því að byrjað var að rannsaka það og þar til búið var að dæma í því. Það kostaði gríðarlega fjármuni. Undir lágu skýrslur sem voru 3.000 síður og vitnaleiðslur upp á 3.000 síður. Það lá til grundvallar hjá þinginu sem fjallaði um og fór yfir málið í nokkra mánuði áður en niðurstaða fékkst í það að sækja einn fyrrverandi ráðherra til saka. Þá lá það alveg fyrir að þar voru mjög skýr brot, lagabrot, skýr ásetningsbrot, en um ekkert slíkt er að ræða hér. Þvert á móti, virðulegi forseti, eru menn að ræða hér um „hættubrot“ eins og það er orðað. Ég vek athygli á því að þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson spurði hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur út í það um hvaða brot nákvæmlega væri að ræða, til hvaða löggjafar, almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða stjórnvaldsaðgerða menn hefðu átt að grípa til til þess að minnka skaðann — hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bað um eitt dæmi, ekki meira en eitt dæmi — þá var svar hv. þingmanns, sem sat í nefndinni og stendur að þessari tillögu, að það sem hefði átt að gera var að meta ástandið, greina ástandið og koma með áætlanir í kjölfarið.

Virðulegi forseti. Nú veit ég að hv. þingmaður er samviskusöm og hefur farið vel yfir þetta mál en ef við erum ekki komin lengra en þetta og við vitum ekki meira eftir tvö ár hvað hefði átt að gera en að komast að þeirri niðurstöðu að það hefði átt að meta ástandið og greina það, þá er nákvæmlega enginn grundvöllur fyrir því að fara í þá vegferð sem menn leggja hér til. Það segir sig sjálft.

Ég spyr líka, ef þetta er eitthvað sem menn hefðu átt að gera en gerðu ekki með fullnægjandi hætti og þess vegna skuli sækja þá til saka fyrir landsdómi: Hvar var matið og greiningin á ástandinu þegar ríkisstjórnin skrifaði undir Icesave-samningana þarsíðasta vor? Hvar var það, virðulegi forseti, þegar klára átti það mál á nokkrum dögum í júnímánuði? Það var alveg ljóst að það sem lagt var upp með og kynnt var fyrir þingmönnum stóðst ekki þegar málið var skoðað.

Þeir hv. þingmenn sem telja að sækja eigi þessa fyrrverandi ráðherra til saka fyrir landsdómi hljóta sömuleiðis að vera fylgjandi því að í það minnsta hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hugsanlega hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir verði sótt til saka fyrir Icesave-málið ef þetta er grundvöllurinn sem menn hafa lagt upp með.

Ég spurði áðan hv. þm. Árna Þór Sigurðsson í stuttu andsvari um það hvort Vinstri grænir sem hafa farið mikinn í þessari umræðu hefðu séð þetta fyrir. Í fyrra andsvari fór hv. þingmaður nokkuð mikinn og ekki var hægt að skilja það öðruvísi en svo að þeir hefðu séð þetta fyrir og komið með tillögur þar að lútandi til að koma í veg fyrir þetta. Í seinna andsvarinu þegar ég benti hv. þingmönnum á ábyrgð forustumanna Vinstri grænna dró hann frekar í land en hélt sig þó við að þeir hefðu komið með tillögur um það á löngu árabili hvað betur hefði mátt fara. Hann vildi sömuleiðis ekki kannast við það, af því að ég nefndi sérstaklega eina stofnun, í rauninni einn lífeyrissjóð, nánar tiltekið stærsta lífeyrissjóð landsins, að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefði verið undir forustu forustumanna Vinstri grænna. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vildi ekki kannast við það og því vil ég benda hv. þingmanni á að Ögmundur Jónasson hefur í það minnsta verið í stjórn sjóðsins frá því 1999 til 2008 og var formaður þar sum árin, m.a. árið 2007. Þá voru, virðulegi forseti, held ég, eignir sjóðsins upp á 350 milljarða kr. Ég þarf ekki að útskýra fyrir þeim sem hér eru inni að þeir sem eru í stjórn sjóða, ég tala nú ekki um lífeyrissjóða, fara með fjöregg þjóðarinnar, að þeirra hlutverk er að gæta hagsmuna sjóðfélaga, gæta fjármunanna og sjá til þess að ávöxtunin sé örugg og góð. Það er því svolítið sérstakt að leggja upp með það og segja að þeir sem stýrðu efnahagsmálum hér á landi hefðu átt að sjá hluti fyrir sem enginn annar sá og jafnvel láta að því liggja að forustumenn eins stjórnmálaaflsins hafi gert það en þess ber engin merki í starfsemi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þvert á móti held ég að ég geti fullyrt að fjárfestingarstefna þess sjóðs var mjög sambærileg og í öðrum lífeyrissjóðum. Reyndar er það svo, virðulegi forseti, að ég efast ekki um að allir stjórnarmenn þar hafi unnið af heilindum að sínum störfum. Það sem ég er að benda á er að það er mjög auðvelt að koma eftir á og segja að þeir hefðu átt að sjá þetta allt saman fyrir, þar á meðal einn helsti forustumaður Vinstri grænna, hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Ögmundur Jónasson.

Það er bara þannig, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að menn sáu ekki þessa hættu fyrir. Hvort sem okkur líkar betur eða verr var það nú svo að þeir sem við erum að ræða um hér, fyrrverandi ráðherrar, gripu til margvíslegra aðgerða til að afstýra þeirri hættu sem menn þó vissu um og höfðu áhyggjur af að gætu orðið. Við vitum ekki enn, eins og hefur komið fram í umræðunni, hvort þetta voru réttu ákvarðanirnar eða hvort menn hefðu átt að fara einhverjar aðrar leiðir. Menn tengja ýmislegt í þessu, það fóru átta bankar og sparisjóðir, í rauninni fleiri, á hausinn svo maður tali bara um það eins og það er, og menn tala mikið um einkavæðinguna en af þeim voru bara tveir einkavæddir. Hinar fjármálastofnanirnar fóru án þess að hafa verið einkavæddar.

Við vorum með endurskoðendur, við vorum með matsfyrirtæki og það er áhugavert að skoða einkunnagjöf matsfyrirtækjanna í rannsóknarskýrslunni. Það var alveg fram á síðustu stundu sem matsfyrirtæki, eins og Moody's, voru að gefa bönkunum þrefalda A-einkunn. Það er sama einkunn og ameríska ríkið fær. Virðulegi forseti. Það er sama einkunn og ameríska ríkið, jafnbrjálað og það nú er. Þannig var það og ég veit ekki hvort hægt er að ætlast til þess að umræddir ráðherrar hafi vitað betur en matsfyrirtækin.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra dró það upp hér áðan að við Íslendingar hefðum farið aðra leið en t.d. Írar sem settu allt bankakerfið í ábyrgð skattgreiðenda. Við gengum hins vegar, svo við tölum um hlutina eins og þeir eru, þannig frá málum og það var þverpólitísk samstaða í þinginu með aðgerðum þingsins að skattgreiðendur bæru ekki ábyrgð og þeir sem báru mest tjón voru erlendir kröfuhafar. Ég sá einhvern tímann að vel yfir 90% af tapinu fara til erlendra kröfuhafa. Á Írlandi taka hins vegar írskir skattgreiðendur þann skell ef hann verður. Hann er orðinn einhver nú þegar og margt bendir til þess að þar verði meira um áföll og það er alveg ljóst hver mun bera þau áföll, það eru írskir skattgreiðendur.

Virðulegi forseti. Mér finnst það vera umhugsunarefni eftir alla umræðuna um bankahrunið, sem hefur staðið núna af ástæðu í tvö ár, að menn viti ekki enn hvað hefði frekar átt að gera. Það er nokkuð merkilegt. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, ef við gætum farið í tímavél og gætum komið að málum og þó svo að viðkomandi einstaklingur sem færi í slíka ferð gæti stýrt málum og gæti komið að þeim í byrjun árs 2008, eru menn ekki enn með það á hreinu og ekki sammála um það og ekki almenn niðurstaða um það, hvorki í þingmannanefndinni né annars staðar, hvað menn áttu að gera. Samt sem áður telja menn að það sé ástæða til að sækja menn til saka fyrir hluti sem þeir gerðu væntanlega ekki, en enginn í þessum sal hefur útskýrt hvað átti að gera, virðulegi forseti, enginn. Þær hugmyndir sem maður hefur séð og heyrt í umræðunni eru sjaldnast rökstuddar og svo sannarlega hefur ekki verið farið yfir þær með skynsamlegum hætti ef menn vilja læra af þessu.

Það kemur kannski í ljós og það kemur örugglega einhvern tíma í ljós hvernig aðrar þjóðir sem lentu í svipuðum málum og við koma út í samanburði við okkur Íslendinga. Sérstaða okkar Íslendinga lá í því að bankakerfið var orðið of stórt en sá vöxtur varð ekki á árinu 2008 heldur á árunum þar á undan og ekkert stjórnmálaafl á Íslandi var með það á stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar 2007 að minnka bankakerfið.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór yfir margar aðgerðir sem farið var í. Ég held að menn þurfi líka að horfast í augu við það hvaða aðrar hugmyndir voru uppi á þessum tíma. Ég held að flestar hafi gengið út á það, virðulegi forseti, að skattgreiðendur mundu með einum eða öðrum hætti taka ábyrgð á bankakerfinu og menn þurfa þá líka að ræða það hreinskilnislega hvort það sé það sem menn hefðu viljað að gert hefði verið. Núverandi seðlabankastjóri upplýsti okkur í hv. viðskiptanefnd að evrópsku bankarnir hefðu farið nákvæmlega sömu leið og þeir íslensku ef bandaríski seðlabankinn hefði ekki bjargað þeim með innstreymi peninga í (Forseti hringir.) evrópsku seðlabankana. Sá reikningur, virðulegi forseti, hefur ekki enn verið greiddur af skattgreiðendum þeirra ríkja.