138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að umræðan hafi að mestu verið málefnaleg, þó eru á því undantekningar. Í beinu framhaldi af því verð ég að segja að mér finnst tillaga hv. þingmanns um að vísa þessu máli til allsherjarnefndar milli fyrri og síðari umræðu ekki vera málefnaleg. Ég vil taka það fram vegna orða hv. þingmanns að ég álít þá tillögu vera vantraust á þingmannanefndina. Það er mín skoðun, ég er að lýsa henni. Nefndin hefur fjallað um þetta álitamál á 30–40 fundum og býr yfir mikilli þekkingu á málinu. Að vísa því í aðra nefnd til að vinna að því upp á nýtt er að mínu mati algerlega fráleitt.

Ég tel það líka vera, frú forseti, lögbrot vegna þess að nefndinni er falið með sérlögum, ekki þingsköpum heldur sérlögum sem standa framar, lögum nr. 142/2008, að sinna þessu verkefni. Ég lít svo á að tillaga um að vísa málinu til allsherjarnefndar sé tilraun til að drepa málið eða a.m.k. drepa því á dreif og koma í veg fyrir að þingið axli þá ábyrgð að klára verkefnið á haustþingi.

Að því er varðar ummæli hv. þingmanns um endurskoðun á ráðherraábyrgðarlögum og landsdómslögum verð ég að segja hv. þingmanni að ég tók sérstaklega á þessari endurskoðun í ræðu minni og ég andmælti því að það væri til að kippa grunninum undan þingsályktunartillögunum tveimur — það er af og frá. Ég nefndi sérstaklega í ræðu minni, en kemst ekki yfir það hér og nú, á hvaða forsendum ég byggði það.