138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hryggja þingsal en ég hafði einungis gert ráð fyrir að tala í 20 mínútur [Hlátur í þingsal.] og var búinn að vera duglegur á hnífnum. En það er svona, það verður ekki á allt kosið. (Gripið fram í: Nei.)

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um málshöfðun gegn ráðherrum. Flutningsmenn hennar eru hv. þm. Oddný G. Harðardóttir og sá sem hér stendur.

Lagt er til að Alþingi álykti skv. 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, sbr. 13. gr. laga um landsdóm, nr. 3/1963, að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn eftirtöldum ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde:

a. fyrrverandi forsætisráðherra og oddvita Sjálfstæðisflokksins,

b. fyrrverandi utanríkisráðherra og oddvita Samfylkingar og

c. fyrrverandi fjármálaráðherra.

Það er skýrt af þeim gögnum sem liggja til grundvallar að refsiábyrgð fyrrverandi ráðherra verður að meta óháð niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Rannsóknarnefndin lagði mat á hátterni ráðherra með hliðsjón af verknaðarlýsingum ráðherraábyrgðarlaga en byggði ekki á refsiskilyrðum þeirra. Þarf því nú bæði að taka mið af verknaðarlýsingum og refsiskilyrðum ráðherraábyrgðarlaga.

Það var öllum ljóst við upphaf ferils máls þessa að við umfjöllun um hugsanlega refsiábyrgð einstakra ráðherra verður að byggja sjálfstætt á reglum refsiréttar við úrvinnslu á niðurstöðum rannsóknarnefndar um vanrækslu ráðherra í skilningi laga nr. 142/2008.

Í þessu sambandi er rétt að vitna til þess sem stendur á bls. 287 í 7. bindi skýrslu rannsóknarnefndar, með leyfi frú forseta:

„Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 142/2008 fer um ábyrgð ráðherra eftir lögum um ráðherraábyrgð. Undirstrikað skal að mat rannsóknarnefndar Alþingis á störfum ráðherra á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 er ekki sambærilegt við mat samkvæmt ákvæðum laga um ráðherraábyrgð. Það kemur í hlut Alþingis að taka nánari afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess að hrinda af stað hinni sérstöku málsmeðferð sem íslensk stjórnskipun mælir fyrir um til að leysa úr álitaefnum varðandi lagalega ábyrgð ráðherra.“

Þannig tekur rannsóknarnefnd Alþingis það skýrt fram að hennar viðmið sé ekki það sama og þingmannanefndar og þingmannanefnd Alþingis verður þannig að leggja sjálfstætt mat á ábyrgð ráðherra gagnvart ráðherraábyrgðarlögum. Það ætti þess vegna ekki að koma neinum á óvart að þingmannanefndin hafi komist að annarri niðurstöðu en rannsóknarnefndin þar sem við höfðum annan mælikvarða í okkar störfum.

Frú forseti. Í öðru ráðuneyti Geirs H. Haardes fóru oddvitar stjórnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, inn á valdsvið annarra ráðherra, stýrðu miðlun upplýsinga og höfðu verkstjórn og verkaskiptingu með höndum. Þannig voru upplýsingaflæði og samskipti um efnahagsmál og málefni íslensku bankanna takmörkuð við hóp þriggja ráðherra.

Um þetta má lesa í bindi 7 í skýrslu rannsóknarnefndar á bls. 291, með leyfi frú forseta:

„Athugun rannsóknarnefndarinnar bendir til að í innra starfi þeirrar ríkisstjórnar sem fór með völd í aðdraganda falls bankanna hafi upplýsingaflæði og samskipti um efnahagsmál, þar á meðal um málefni íslensku bankanna á mikilvægum tímabilum, takmarkast að verulegu leyti í framkvæmd við þröngan hóp ráðherra. Annars vegar voru þar Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og hins vegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og oddviti Samfylkingarinnar.“

Af þessari skipan leiddi að ekki var samræmi á milli lögboðins valds og raunverulegs valds ráðherra. Þessu til stuðnings skal bent á að fyrrverandi viðskiptaráðherra tók ekki þátt í fundi með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands 7. febrúar 2008. Hann fékk ekki heldur upplýsingar um útstreymi af Icesave-reikningum í Bretlandi í lok mars sama ár. Hann hafði ekki vitneskju um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl, undirritaði ekki yfirlýsingu sem fylgdi gjaldeyrisskiptasamningi norrænna seðlabanka 15. maí og var ekki viðstaddur sex fundi um efnahagsmál og málefni bankanna sem nefndir eru í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sátu ásamt fulltrúum Seðlabanka Íslands.

Loks má þess geta að viðskiptaráðherra vissi ekki af samtali formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands við bankastjóra Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Bretlands þar sem fram kom að erlendir bankastjórar höfðu áhyggjur af alvarlegri stöðu íslenska bankakerfisins. Fyrrverandi viðskiptaráðherra voru heldur ekki kynntar aðgerðir ríkisvaldsins vegna lánabeiðni Glitnis banka sunnudaginn 28. september 2008. Þá hafði fyrrverandi viðskiptaráðherra frumkvæði þann 12. ágúst 2008 er hann lagði fram minnisblað fyrir ríkisstjórn sem innihélt tillögu um að efla stöðugleika fjármálakerfisins. Tillaga þessi var ekki afgreidd í ríkisstjórn. Hið sama hafði verið uppi á teningnum þegar fyrrverandi viðskiptaráðherra kynnti oddvitum stjórnarflokkanna drög að frumvarpi til breytinga á lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta snemma árs 2008.

Í ljósi alls þessa telja flutningsmenn tillögunnar að fyrrverandi viðskiptaráðherra hafi ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi í starfi sínu sem ráðherra. Hann hafði ekki sömu vitund um hættuna sem var aðsteðjandi og aðrir ráðherrar.

Virðulegi forseti. Á þessum vettvangi hefur orðið nokkur umræða um það ferli sem Alþingi setti málefni fyrrverandi ráðherra í, þ.e. skipan rannsóknarnefndar, skipan þingmannanefndar og svo hefur einnig heyrst nokkur gagnrýni á landsdómslög og lög um ráðherraábyrgð. Fyrir tæpu ári síðan voru þingmenn allir sammála um það ferli sem málefni ráðherranna voru sett í, skipuð yrði nefnd þingmanna til að m.a. taka afstöðu til ábyrgðar ráðherra og hvort kalla ætti landsdóm saman. Engin umræða var í þessum sal um hvort lög um ráðherraábyrgð eða lög um landsdóm væru óskýr. Þingmönnum hefði verið í lófa lagið að gera breytingar áður en níumenningarnir voru sendir af stað í vegferð sína. Þess vegna er einkennilegt að heyra mikla gagnrýni á ferli málsins á þessu stigi þegar nefndin hefur birt niðurstöður sínar og þegar öllum þingmönnum mátti að vera ljóst að þingmannanefndin gæti komist að þeirri niðurstöðu að kalla ætti landsdóm saman.

Frú forseti. Það er réttur hvers þingmanns að mynda sér sjálfstæða skoðun í þessu veigamikla máli. Hér á ekki að fara að flokkslínum. Íhuga þarf allar staðreyndir og röksemdir og komast að niðurstöðu sem viðkomandi þingmaður getur sjálfur lifað með. Þann rétt verðum við að virða hvert hjá öðru.

Þess vegna tek ég því ekki persónulega eða lít á það sem persónulegan ósigur fyrir þingmannanefndina að aðrir þingmenn séu henni eða mér ekki sammála um ábyrgð einstakra ráðherra, en ég fyrir mitt leyti er ósammála nokkrum þeim fullyrðingum sem hafa verið á lofti, t.d. um að viðkomandi ráðherrar hafi ekki notið andmælaréttar við meðhöndlun málsins hjá þingmannanefnd.

Ég vil í því sambandi vitna til bréfs sem þingmannanefndin sendi fyrrverandi utanríkisráðherra í maí 2010 en þar segir m.a., með leyfi frú forseta:

„Við mat á ráðherraábyrgð er þingmannanefndin ekki bundin af niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Þingmannanefndin vill gefa yður kost á að senda nefndinni athugasemdir, upplýsingar eða svör við niðurstöðum skýrslunnar. Sérstaklega er þess óskað að fram komi athugasemdir yðar vegna hugsanlegrar vanrækslu með tilliti til stöðu yðar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, vitneskju og upplýsinga sem þér höfðuð undir höndum sbr. einnig umfjöllun í kafla 21.5.“

Það er mat þess sem hér stendur að viðkomandi ráðherra eða aðrir ráðherrar hafi átt að gera sér það fullkomlega ljóst að þingmannanefndin var ekki bundin af niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar og að hún væri að íhuga ábyrgð ráðherra enda fjallar kafli 21.5 um mistök eða vanrækslu ráðherra. Í þeim kafla kemur einnig skýrt fram að mat rannsóknarnefndarinnar er ekki sambærilegt við mat samkvæmt ákvæðum laga um ráðherraábyrgð og þeirra laga sem þingmannanefndin þarf að taka afstöðu til.

Það er því mín skoðun að með áðurnefndum andmælabréfum hafi fyrrverandi ráðherrum verið gert kleift að koma á framfæri sjónarmiðum sínum gagnvart þeim atriðum sem til skoðunar voru og þannig hafi öllum sjónarmiðum um mannréttindi viðkomandi verið mætt.

Í þessu sambandi vil ég vitna til orða Róberts Spanós prófessors í viðtali í Morgunblaðinu 15. september sl., en þar segir, með leyfi frú forseta:

„„Öllum sjónarmiðum, sem fram komu um að danska kerfið bryti í bága við mannréttindi ráðherrans og réttláta málsmeðferð, var hafnað af Mannréttindadómstólnum,“ segir hann. „Þessi niðurstaða er skýr vísbending um að ekki sé ástæða til að ætla að okkar landsdómskerfi brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmálans um réttláta málsmeðferð.““

Frú forseti. Þá hefur einnig heyrst sú gagnrýni að þingmannanefndin hefði átt að láta framkvæma sérstaka rannsókn áður en hún skilaði ályktun sinni til Alþingis. Í þessu sambandi vil ég segja þetta: Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ítarlegt plagg, mörg þúsund síður, sem varpar skýru ljósi á aðdraganda hruns íslensku bankanna og hruns hins íslenska efnahagskerfis. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar er efnismikil og rekur t.d. mjög ítarlega allt markvert sem gerðist á vettvangi Stjórnarráðsins allt árið 2007 og árið 2008 fram að hruni bankanna. Þessir atburðir eru næstum því raktir frá degi til dags. Þannig er skýr mynd dregin upp af því hvað einstakir ráðherrar vissu og vissu ekki. Hér er verið að lýsa upp vettvanginn með mjög skýrum hætti.

Það er einkennilegur málflutningur að mati þess sem hér stendur að nú dugi ekki lengur að byggja á þessari atvikalýsingu. Það var mat þingmannanefndar að ítarleg skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis upp á sjö bindi og mörg þúsund blaðsíður væri rannsókn eins og rannsóknir gerast bestar, þær gerast a.m.k. ekki mikið ítarlegri. Þannig taldi þingmannanefndin skýrslu RNA gefa mjög skýrar upplýsingar um það sem gerðist í raun og veru og að á þeim grunni væri hægt að fjalla um ábyrgð einstakra ráðherra.

Ef Alþingi telur að leggja beri í aðra rannsókn vil ég spyrja, með leyfi: Hvað á sú rannsókn að leiða í ljós sem ekki kom fram í 16 mánaða vinnu rannsóknarnefndar Alþingis? Ég vil ítreka í þessu sambandi skilning minn að hverjum og einum þingmanni beri að meta sjálfum hvort grundvöllur sé til ákæru, en ég er ekki sammála þeim sjónarmiðum að krefjast beri ítarlegri rannsóknar.

Aukinheldur ber að taka fram að ef Alþingi telur að frekari rannsókn sé nauðsynleg þarf að móta skýran lagaramma um þá rannsókn svo að viðkomandi einstaklingar fái skýra réttarstöðu, því ef þingmannanefndin hefði látið framkvæma rannsóknina hefði staða viðkomandi ráðherra verið alveg sú sama og þeir höfðu fyrir rannsóknarnefndinni. Ég spyr þá: Hvaða upplýsingar hefðu átt að koma fram við slíka rannsókn á vegum þingmannanefndar sem ekki komu fram við upphaflega rannsókn eða við andmælabréf ráðherra eða hin síðari andmælabréf ráðherra? Ef tillaga til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum er samþykkt á Alþingi hefst sjálfstæð rannsókn og þá er réttarstaða viðkomandi fullkomlega skýr og ekki nein hætta á að mannréttindi séu brotin.

Frú forseti. Í umræðum síðustu daga hafa menn lýst þeirri skoðun sinni að málsmeðferðin samkvæmt landsdómslögum brjóti í bága við mannréttindaákvæði og standist ekki nútímakröfur um meðferð sakamála. Málsmeðferðarreglur laga um landsdóm eru að hluta til frábrugðnar gildandi reglum um meðferð sakamála. Í fyrsta lagi skal ákæra á hendur ráðherra bundin í þingsályktun og kæruatriðin þar nákvæmlega tilgreind enda sé sókn málsins bundin við þau. Ef til þess kemur að þingsályktunartillagan verði samþykkt skal saksóknari málsins, kosinn af Alþingi, afla allra fáanlegra sönnunargagna.

Þeir fyrrverandi ráðherrar sem hér er gerð tillaga um að verði ákærðir hafa ekki fengið réttarstöðu grunaðra og ekki er gert ráð fyrir að öll sönnunargögn málsins séu fram komin heldur mun saksóknari afla þeirra með rannsókn sinni. Þessi tilhögun í sérlögunum, lögum um landsdóm, brýtur ekki gegn grundvallarmannréttindareglum, m.a. um sakleysi grunaðs manns uns sekt hans er sönnuð eða um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Dómur landsdóms skal reistur á sönnunargögnum sem færð hafa verið fram við meðferð málsins fyrir dómi og er þessi háttur í samræmi við meginregluna í lögum um meðferð sakamála. Afmörkun sakarefnisins byggist, eins og áður segir, á því sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar, athugasemdum viðkomandi ráðherra til þingmannanefndar og gögnum sem þingmannanefndin hefur aflað. Ég ítreka að við þessa málsmeðferð hafði enginn þingmaður athugasemdir í desember sl. þegar þingmannanefndin var sett af stað í verkefnið.

Virðulegi forseti. Þingmannanefndin tók alvarlega þá skyldu sína að taka afstöðu til þeirra gagna sem fyrir lágu og ákvað með tilliti til laga um ráðherraábyrgð hvort meiri líkur væru en minni á sakfellingu fyrrverandi ráðherra fyrir landsdómi. Að þeirri niðurstöðu komst sá er hér stendur varðandi fyrrverandi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Það var ætíð skilningur minn í starfi mínu í þingmannanefndinni að ég væri vissulega tilnefndur af þingflokki Samfylkingar í þessa nefnd en að ég þyrfti að sinna verkum mínum sem alþingismaður. Þannig væri það mikilvægt að nálgun mín á verkefnið væri ekki lituð af því í hvaða flokki ég væri eða í hvaða flokki viðkomandi einstaklingar væru. Verkefnið væri viðameira en svo að ég gæti látið flokkapólitík ráða för. Þannig var reynt að leggja kalt mat á gögnin sem lágu til grundvallar og leggja kalt mat á lögin sem þurfti að taka mið af.

Frú forseti. Það var með meðvituðum hætti að þingflokkar ákváðu að setja nýja þingmenn í það verkefni að skoða rannsóknarskýrslu Alþingis til að draga af henni lærdóm, koma með tillögur að breytingum og taka afstöðu til ábyrgðar fyrrverandi ráðherra. Það þótti skynsamlegt að til þess starfs veldust þingmenn sem ekki voru á vettvangi þegar hrunið átti sér stað. Þeir væru best til þess fallnir að skoða hvort ráðherrar hefðu brotið lög um ráðherraábyrgð.

Hrun íslenska efnahagskerfisins haustið 2008 olli gríðarlegum búsifjum. Mörg hundruð milljarðar töpuðust úr efnahagskerfi okkar, þúsundir misstu atvinnuna í kjölfarið, eignastaða heimila og fyrirtækja varð neikvæð og einstaka atvinnugreinar eru rústir einar. Áfallið var gríðarlegt og það tekur okkur mörg ár að vinna tapið til baka.

Það er mat þess sem hér stendur að einstaka ráðherrar hafi haft undir höndum upplýsingar þess efnis að þeir hefðu átt að grípa til ákveðinna aðgerða til að minnka fyrirsjáanlegt tjón. Þeim var eða hefði átt að vera það fullkomlega ljóst snemma árs 2008 að í október sama ár mundu bankarnir lenda í alvarlegum vandræðum. Þrátt fyrir allt getum við ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að samkvæmt lögum sem gilda í þessu landi ber okkur að fullkanna hvort viðkomandi ráðherrar hafi gerst brotlegir við lög. Við það mat verðum við að leggja til grundvallar þau ítarlegu gögn sem okkur er uppálagt að skoða og þann lagaramma sem við erum að vinna eftir. Undan þeirri ábyrgð getum við alþingismenn ekki skorast.