138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[17:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar rannsóknarnefnd Alþingis skilaði af sér skýrslu sinni tilgreindi hún þá skoðun sína og niðurstöðu í 1. kafla 1. bindis rannsóknarskýrslunnar að það sem þar væri á ferðinni, þ.e. niðurstaða rannsóknarnefndarinnar, öll skýrslan, þær vitnaleiðslur sem fram hefðu farið fyrir nefndinni, gæti ekki orðið grundvöllur sakamáls. Það er afar skýrt af hálfu nefndarinnar og kemur greinilega fram að ef láta eigi reyna á lög um ráðherraábyrgð þurfi að kanna tilvist og umfang og afleiðingar þess sérstaklega.

Hv. þm. Magnús Orri Schram hefur ekki skýrt út, andmælt eða komið með rökstuðning gegn þessari skýru niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar sem ekki er einungis að finna í skýrslu hennar heldur kemur hún einnig fram hvað eftir annað í þingskjölum er fjalla um rannsóknarnefndina sjálfa og þær breytingartillögur sem lagðar voru fram haustið 2009 og voru grunnurinn (Forseti hringir.) að því að þingmannanefndin var sett á laggirnar.