138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[17:53]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp til þess að þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir framsögu sína og tillögu hans og hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur. Það er niðurstaða okkar í þingflokki Samfylkingarinnar, og það er gott að hafa tækifæri hér til að koma því skýrt á framfæri, að hver og einn þingmaður í okkar röðum mun á endanum eiga það við sannfæringu sína hvernig hann eða hún greiðir atkvæði um þær tillögur sem hér liggja fyrir. Á mannamáli: Það er ekki flokkslína í Samfylkingunni.

Við sendum hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og Magnús Orra Schram í þessa vegferð fyrir níu mánuðum, í þessa eldskírn, vil ég segja. Þau hafa skilað góðu verki, unnið samviskusamlega, af heilindum og af yfirgripsmikilli þekkingu um málið, kynnt sér allar hliðar þess og komist að sinni niðurstöðu. Hvað við hin svo gerum mun koma í ljós í seinni umræðu og við atkvæðagreiðslur um tillögurnar.

Mér er ljúft og skylt sem þingflokksformanni Samfylkingarinnar að nota þetta tækifæri hér, svo það komist líka í þingskjölin, og þakka þeim fyrir vinnu þeirra fyrir okkar hönd og fyrir hönd almennings í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)