138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hans og hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir andsvar hennar og hlý orð í okkar garð.

Það er rauði þráðurinn í þeirri nálgun sem — ef ég reyni að nýta minn stutta tíma til þess að draga það saman — að viðkomandi ráðherrar hafi haft meiri vitund um þá hættu sem var aðsteðjandi en aðrir ráðherrar. Þeir fengu þá vitund á tilteknum fundum sem eru ítarlega raktir í gögnum okkar og þar af leiðandi og sömuleiðis í skýrslu rannsóknarnefndar. Það er alveg ljóst, eins og kemur vel fram í skýrslu rannsóknarnefndar, að tilteknar upplýsingar voru einungis gefnar á tilteknum fundum en voru ekki ræddar t.d. í samráðshópi um fjármálastöðuleika. Þar virðist hafa verið meðvituð ákvörðun t.d. að láta ekki liggja eftir nein skrifleg gögn til þess að hv. fyrrverandi viðskiptaráðherra gæti ekki komist að því sem þar var rætt.

Þannig er vitundin um hættuna bundin við ákveðna aðila og á þeim grunni byggjum við nálgun okkar. (Gripið fram í.)