138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[17:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi tekið rétt eftir að hv. þingmaður hafi sagt að upplýsingum hafi verið haldið frá fyrrverandi viðskiptaráðherra með vísvitandi hætti. Það þykja mér mikil tíðindi og ég ætla ekki að skiptast á skoðunum við hv. þingmann um þá fullyrðingu en hún vekur óneitanlega mikla athygli mína allra hluta vegna.

Það sem hv. þingmaður er þá í raun og veru að segja okkur er að tekin hafi verið ákvörðun um að halda fundi, halda upplýsingum frá viðkomandi ráðherra, og að það hafi verið á þessum tilteknu fundum sem hinar mikilvægu upplýsingar komu fram sem hefðu átt að gefa tilefni til þess að bregðast við með einhverjum hætti sem ekki var gert. Það eru þessir tilteknu fundir, heimsókn sérfræðings í Seðlabankann o.s.frv., sem nefndir eru í málsskjölum hv. þingmanns sem hann telur að hefðu getað valdið þeim straumhvörfum að ekki hefði verið tilefni til þess að ákæra ef menn hefðu brugðist við á grundvelli þessara upplýsinga.

Ég verð að segja að það (Forseti hringir.) finnast mér alveg ótrúlega (Forseti hringir.) veik rök í þessu máli.