138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[18:48]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir Alþingi liggja nú tvær þingsályktunartillögur um að ákæra beri fjóra ráðherra úr annarri ríkisstjórn Geirs H. Haardes. Umræður undanfarna daga og niðurstöður atkvæðagreiðslna þegar þar að kemur verður mikill prófsteinn á Alþingi sem nú er skipað óvenjumörgum nýjum þingmönnum. Allir kostir eru vondir þykir mér. Nú reynir svo sannarlega á að fylgja eigin sannfæringu eins og við höfum heitið öll við undirritun á drengskaparheiti við stjórnarskrána. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að þessar tvær tillögur valda mér allnokkrum heilabrotum sem aukast í réttu hlutfalli við lestur á gögnum, bæði þeim sem eru aðgengileg öllum landsmönnum og ekki síður þeim sem bundin eru trúnaði og aðeins þingmenn hafa aðgang að. Það sækja að mér efasemdir um að við séum á réttri leið hvað varðar hið pólitíska uppgjör á hruninu á Íslandi. Munu ákærur á hendur þessum þremur eða fjórum fyrrverandi ráðherrum veita okkur frið í sálinni og þann þrótt sem við þurfum til að byggja upp réttlátt samfélag? Ég efast um það.

Ég ætla að leyfa mér að hafa ekki neina sérstaka skoðun á því ferli sem þingið samþykkti á sínum tíma og við nú vinnum eftir, einfaldlega vegna þess að ég sat ekki á Alþingi á þeim tíma. Ég vil hins vegar leyfa mér að leggja inn í umræðuna þrjár hugmyndir að leiðum um málsmeðferð sem hugsanlega mætti verða til þess að koma málinu upp úr þeim skotgröfum sem það nú er komið í. Það getur líka verið gott að hafa þessar leiðir í huga fari svo að þingið samþykki ekki fyrirliggjandi þingsályktunartillögur. Alþingi þarf eftir sem áður að gera upp þátt og ábyrgð stjórnmálamanna á hruninu.

Fyrsta leiðin er sú að Alþingi álykti að niðurstöður rannsóknarnefndarinnar standi sem endanleg niðurstaða í málinu. Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að þrír fyrrverandi ráðherrar hafi sýnt vanrækslu eða orðið á mistök í störfum sínum. Þetta eru þung orð sett fram af virtum og frekar óumdeildum, einstaklingum í samfélagi okkar, og þessi orð verða ekki afmáð og standa sem áfellisdómur um ókomna framtíð.

Önnur leið gæti verið sú sem Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi þingmaður, forsætis- og dómsmálaráðherra með meiru, lagði til í grein sinni í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag. Þar setur hann fram þá skoðun sína að málsmeðferð standist ekki skoðun og færir fram ýmis rök fyrir máli sínu. Þorsteinn segir í grein sinni, með leyfi forseta:

„Í þessu samhengi þarf að horfa á fleiri þætti en skort á réttlátri málsmeðferð. Rannsóknarnefndarskýrslan sýnir að á sex ára tíma fram að hruni gjaldmiðilsins og bankanna stuðluðu ákvarðanir og ákvarðanaleysi býsna margra að því sem varð.“

Með öðrum orðum, hann dregur fram mikilvægi þess að hrunið varð ekki aðeins á vaktinni árið 2008, hrunið hófst miklu fyrr. Þorsteinn heldur áfram, með leyfi forseta:

„Skýrslan greinir réttilega að stjórnvöld peningamála bera mesta ábyrgð á falli gjaldmiðilsins. Stjórnendur og eigendur bankanna bera hins vegar mesta ábyrgð á falli þeirra.

Það sem úrskeiðis fór hjá stjórnvöldum snýr einkum að einkavæðingu bankanna, stefnunni í ríkisfjármálum, á húsnæðislánamarkaðnum og í peningamálum. Rannsóknarnefndin telur að ekki hafi verið unnt að koma í veg fyrir fall bankanna eftir 2006.“

Að lokum, frú forseti, segir Þorsteinn Pálsson:

„Einungis hefur komið til skoðunar að ráðherrar beri ábyrgð með embættismissi og refsingu landsdóms. Einn kostur er þó til sem aldrei hefur verið nýttur hér en stundum í grannríkjum eins og Danmörku. Alþingi getur þannig samþykkt ályktun þar sem tilteknar embættisathafnir ráðherra sæta ámæli. Þegar þetta er gert í Danmörku er í daglegu máli sagt að þjóðþingið gefi ráðherrum langt nef. Þetta er veigamikil stjórnskipuleg málsmeðferð.

Helsti kosturinn við þessa aðferð“ — segir Þorsteinn Pálsson — „er sá að unnt er að leggja skýrslu rannsóknarnefndarinnar um allt tímabilið til grundvallar málalokum um ráðherraábyrgð. Fyrningarreglur ráða þá ekki alfarið til hverra uppgjörið nær.“

Þetta var önnur tillaga sem ég vil leggja inn í þessa umræðu, frú forseti.

Þriðja leiðin sem hægt væri að fara er svokölluð sáttarleið eða sáttargjörð líkt og farin var í Suður-Afríku í lok síðasta áratugar þegar stjórnvöld stóðu frammi fyrir því erfiða viðfangsefni að sætta tvær stríðandi fylkingar eftir áralanga aðskilnaðarstefnu hvíta minni hlutans. Sáttargjörðin í Suður-Afríku er byggð á eins konar sannleiksskýrslu sem hugsanlega má líkja við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en þó bara að örlitlu leyti. Í sannleiksskýrslu sáttanefndar Suður-Afríku var niðurstaðan sú að mannréttindabrot og glæpir hafi verið framdir í landinu. Auðvitað sleppir þar samlíkingunni vegna þess að í skýrslu rannsóknarnefndar er ekki kveðið svo fast að orði. Þar er ekki talað um brot á mannréttindum en dómstólar eiga eftir að skera úr um hvort glæpir hafi verið framdir hér á landi í aðdraganda og falli íslenska fjármálakerfisins.

Hvað merkir sáttargjörð? Merkir hún það sama og að fyrirgefa? Nei, sáttargjörð er annað en fyrirgefning. Fyrirgefning getur verið einhliða, sáttargjörð er hins vegar alltaf gagnkvæm. Við getum fyrirgefið þeim sem vita ekki af því að þau hafi gert eitthvað á okkar hlut eða viðurkenna ekki sök sína. Oft er þrýst á einhliða fyrirgefningu þegar einstaklingar eiga í hlut. Þolendur ranglætis eru þá hvattir til að gleyma og halda ótrauðir áfram, sleppa reiði og haturshugsunum, frelsa sjálfa sig undan hremmingum erfiðra tilfinninga og losna þar með úr kreppu sinni. Stundum getur þess konar afstaða og ferli hjálpað en mikilvægt er að slík fyrirgefning felur ekki í sér að við afsökum, réttlætum eða viðurkennum framkomu þess sem beitt hefur okkur ranglæti.

Sannleiksnefnd og sáttanefndin í Suður-Afríku þurfti að takast á við margra áratuga óréttlæti í landinu. Við á Alþingi einblínum nú á hugsanlega vanrækslu ráðherra í átta mánuði vitandi það að hinir raunverulegu pólitísku ábyrgðarmenn hrunsins eru miklu fleiri og ekki síður allt aðrir menn og konur en hér eru til umfjöllunar.

Frú forseti. Ég leyfi mér því að varpa fram þeirri hugmynd að við alþingismenn skoðum einhverja af framangreindum leiðum til að leysa úr þeim ágreiningi sem nú er risinn upp. Hann er ekki bara hér í þingsölum, heldur líka úti í samfélaginu. Þar ríkir engin sátt um hvaða leið skuli farin en svo mikið er víst að ef annar hópurinn, þ.e. annaðhvort andstæðingar eða fylgismenn þess að kallaður verði saman landsdómur, nær sínu fram mun seint ríkja sátt í landinu. Líkt og íbúar í Suður-Afríku gerðu á sínum tíma þurfum við nú að grafa stríðsöxina, rétta fram sáttarhönd og hefja sameiginlega endurreisn samfélagsins.

Frú forseti. Ég varpa þessum hugmyndum hér inn í umræðuna. Ég hef lauslega rætt þessi mál við starfsmenn þingsins sem hafa leiðbeint mér örlítið um málsmeðferð, ég ætla ekkert að fara nánar út í það. Ég legg hins vegar áherslu á að þegar málinu verður vísað til nefndar, hvort sem það verður þingmannanefndin aftur eða allsherjarnefnd, velti menn upp þeirri hugsun og hugsanlegu afleiðingum af niðurstöðu þingsins á næstu missirum vegna þess að eins og margir sérfræðingar sem hafa komið að máli við okkur í þingflokki Samfylkingarinnar ber okkur ekki einungis að horfa þröngt á lagarammann, okkur ber líka þegar kemur að því að greiða atkvæði að taka inn í ákvörðun okkar þær afleiðingar fyrir samfélagið sem ákvörðun okkar og niðurstaða kann að hafa. Ég leyfi mér að efast um að það muni ríkja mikil sátt hvort heldur sem Alþingi fellir eða samþykkir að kalla saman landsdóm.