138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[18:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem lögfræðingur og raunar alþingismaður um leið verð ég að játa það að mér er fyrirmunað að átta mig á því hvaða sjónarmið önnur en lagaleg við getum lagt til grundvallar þegar við tökum afstöðu til þess hvort gefa beri út ákæru á grundvelli ráðherraábyrgðarlaga eða ekki. Þetta kann að vera það sem er í tísku að kalla þrönga lagahyggju af minni hálfu, svo verður bara að vera. Við getum deilt um margt í sambandi við stjórnarskrá og ráðherraábyrgðarlög, en staðreyndin er sú að hér eru komnar fram tillögur um ákærur á grundvelli ráðherraábyrgðarlaganna og landsdómslaganna. Ég hef í umræðum margoft bent á að við þá ákvörðun erum við í hlutverki ákæruvalds. Við erum handhafar ákæruvalds. Við verðum að hugsa um í því sambandi hvort líklegt sé að ákæra sem gefin verður út í nafni þingsins sé líkleg til sakfellingar fyrir dómstólum, sá dómstóll mun dæma eftir lögunum í landinu, ekki öðru, einungis lögunum í landinu. Þegar við erum komin út í refsipólitík, þegar við erum komin út í það að velta fyrir okkur hvort við ætlum að gefa út ákærur sem eiga að leiða til refsinga, eins og lagt er til í tillögum tveggja hópa þingmanna úr þingmannanefndinni, verðum við einfaldlega að hafa í huga þau sjónarmið lögfræðinnar, sjónarmið sakamálaréttarfarsins og sjónarmið sem kenna má hugsanlega við þrönga lagahyggju. Mér finnst hins vegar að umtal um þrönga lagahyggju beri hins vegar oft merki þess (Forseti hringir.) að menn vildu einfaldlega að lögin væru einhvern veginn öðruvísi en þau eru.