138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[19:00]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hvarflar að sjálfsögðu ekki annað að mér en að við munum fylgja lögum þegar kemur að því að greiða atkvæði um þær tvær þingsályktunartillögur sem hér liggja fyrir. Hins vegar hafa margir bent á að lög um ráðherraábyrgð og lög um landsdóm skeri sig úr að því leytinu til að þar er tiltekið svigrúm sem menn geta haft til hliðsjónar þegar t.d. tekin er ákvörðun um hvort beri að gefa út ákæru. Eftir því sem ég skilst, ég er ekki löglærð, endurspeglast það m.a. í samsetningu landsdómsins, þ.e. að meiri hluti dómsins sé skipaður af Alþingi.

Eins og ég gat um áðan hafa þau sjónarmið líka komið fram — eins og hv. þingmaður veit hefur þingflokkur Samfylkingarinnar reynt að undirbúa málið sem best í eigin flokki og við höfum kallað til ýmsa þá sem hafa aðstoðað eða veitt þingmannanefndinni ráðgjöf á sínum tíma — að þar sem við erum ekki að byggja á þröngum refsirétti heldur á grundvelli ráðherraábyrgðar og landsdóms komi inn önnur vídd sem við eigum að hafa í huga, en að sjálfsögðu ætlum við ekki að ganga gegn lögum nema síður sé.