138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[19:04]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Birgi Ármannssyni að vandamál okkar eru vissulega léttvæg í samanburði við vandamál í Suður-Afríku seint á tíunda áratugnum. Engu að síður vakti þetta mig til umhugsunar um hugsanlega leið til að skoða, vega og meta. Það voru einmitt þau rök sem ég færði áðan fyrir því að við ættum kannski að víkja af vegi hinnar þröngu lagahyggju, eins og hv. þingmaður nefndi sjálfur áðan, þegar kemur að því að við greiðum atkvæði. Það var einfaldlega þess vegna sem ég settist niður og velti fyrir mér öðrum leiðum sem mættu hugsanlega verða til þess að hreyfa við þessu máli því að ég er sannfærð um að það verður ekki sú sátt í samfélaginu, alveg sama á hvorn veginn atkvæðagreiðslan fer þegar þar að kemur, sem við vonuðumst til að næðist með þessari vinnu þingmannanefndarinnar.

Það ríkti mjög mikil ánægja og sátt um niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis og sú skýrsla er býsna góð sannleiksskýrsla og dregur ýmislegt upp á yfirborðið sem getur verið góður vegvísir í því að halda starfinu áfram, en það verður aldrei sátt um það að aðeins þrír eða fjórir ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm á sama tíma og aðrir ganga lausir og valsa um, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á áðan, vítt og breitt um heiminn og þurfa enga ábyrgð að bera á hátterni sínu. Það er ekki sú sátt sem við erum að sækjast eftir. Auðvitað getum við öll held ég fallist á það að þessi þröngi tímarammi eða fyrningarákvæði ráðherralaganna setji okkur skorður sem við erum öll óánægð með.