138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[19:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu sem var svolítið á öðrum nótum en annarra þingmanna sem hér hafa talað.

Mig langar til að vekja athygli hv. þingmanns á því að í skýrslu þingmannanefndarinnar, sem er sameiginleg, tel ég að við mætum flestöllum þeim sjónarmiðum sem fram koma í ræðu hv. þingmanns. Þar komast þingmenn allra flokka að sameiginlegri niðurstöðu. Þar eru mjög beinskeyttar tillögur til ályktana fyrir þingið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Þegar þingmaður skoðar í fullri dýpt þær tillögur sem liggja fyrir skýrslu þingmannanefndarinnar geta menn þá ekki fallist á það að hér sé á ferðinni akkúrat það sem menn hafa sumir hverjir verið að tala um í dag, þ.e. að þingið álykti um ábyrgð fyrrum stjórnvalda? Hér segir t.d. á bls. 24, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur að mistök hafi verið gerð í hagstjórn og ríkisfjármálum á árunum frá 2003 þegar ráðist var í umfangsmiklar stóriðjuframkvæmdir, útlánareglum Íbúðalánasjóðs breytt og skattar lækkaðir þvert á ráðleggingar sérfræðinga án þess að bregðast jafnframt á fullnægjandi hátt við hagsveiflum, ofþenslu og vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu.“

Sumir mundu segja að þetta væri mjög harkalegt, sérstaklega þegar allir fulltrúar í þingmannanefndinni standa að þessari ályktun.

Þá segir á bls. 30:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna.“

Er hér á ferðinni ekki þessi selbiti, þessar vítur eða ákúrur sem menn hafa verið að tala um að vinir okkar og frændur á Norðurlöndum beiti, sérstaklega í Danmörku?

Þá enn og aftur, á bls. 15 í drögum að þeirri þingsályktunartillögu sem nefndin stendur sameiginlega að, stendur: (Forseti hringir.)

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Hér er þetta allt saman.