138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[19:12]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeim þremur tillögum sem ég reifaði aðeins áðan vil ég reyndar ganga lengra en hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir lýsti og eru kynntar í niðurstöðum skýrslu þingmannanefndar. Ég vil ganga lengra. Ég vil að þingið víti þessa fyrrverandi þingmenn og ráðherra og ég vil að sjálfsögðu ganga lengra með þeirri hugmynd um að einhvers konar sáttanefnd verði falið að koma á sátt á milli þeirra fjölmörgu sem telja á sér brotið og þeirra sem stóðu í brúnni frá árinu 2000 og fram til ársins 2009 eða 2008, eða hvar við viljum setja mörkin. Það er það sem ég er að velta upp með þessum hugmyndum.

Mér finnst á engan hátt að draga eigi úr mikilvægi ábyrgðar stjórnmálamanna á því hruni sem varð, þó svo að skýrsla rannsóknarnefndar komist réttilega að því að megingerendur voru fjármálamenn. Mér finnst mjög mikilvægt að til að mynda minn flokkur horfist í augu við ábyrgð sína á hruninu þann tíma sem flokkurinn hafði tök á að bregðast við.

Ég vil líka að aðrir flokkar eigi þess kost að koma fram og standa frammi fyrir fólki sem hefur orðið fyrir miklu tjóni, bæði fjárhagslegu og andlegu, og biðjast afsökunar. Út á það gengur þessi hugmynd um sáttaferli. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um að ganga þurfi eins langt og í Suður-Afríku á sínum tíma. En margir hafa horft til þeirrar aðferðar sem hefur gefið góða raun til að ná sáttum í samfélögum sem eiga um sárt að binda og virðist vera erfitt að ná sáttum um hvernig skuli halda áfram með uppbyggingu.