138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:32]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Tvær tillögur hafa komið fram, önnur frá hv. þm. Atla Gíslasyni um að málinu verði vísað til þingmannanefndar skv. 15. gr. laga nr. 142/2008, eins og þeim var breytt í árslok 2009. Hin tillagan er frá hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur um að málið fari til allsherjarnefndar.

Vegna orða sem féllu í umræðunum vill forseti taka fram og úrskurða að báðar tillögurnar eru gildar.

Atkvæðagreiðslan fer fram samkvæmt fastri þingvenju. Fyrst verða greidd atkvæði um þá tillögu sem fyrst kom fram, þ.e. í þessu tilviki tillögu frá hv. þm. Atla Gíslasyni. Verði hún samþykkt kemur hin tillagan ekki til atkvæða. Verði hún felld kemur tillaga Ragnheiðar E. Árnadóttur til atkvæða.