138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Tillögu þeirri sem ég bar fram í umræðunum í gær um að þingsályktunartillögunum verði vísað til umfjöllunar í allsherjarnefnd en ekki þingnefndinni var ekki ætlað að varpa nokkurri rýrð á störf þingmannanefndarinnar, heldur þvert á móti tryggja að þessi mikilvægu mál fái sem vandaðasta málsmeðferð. Það gerum við alltaf þegar við sendum mál til umfjöllunar í fagnefndum þingsins, ekki til þess að svæfa þau, það er ekki það sem vakir fyrir neinum hér, heldur til að tryggja sem vönduðust vinnubrögð og sem vandaðasta krítíska umfjöllun þessara mála innan þingsins. Okkur ber skylda til að tryggja að svo verði og það er það sem vakir fyrir okkur.

Þetta snýst einungis um vönduð vinnubrögð, að við fáum fleiri aðila að málinu, aðila (Forseti hringir.) sem eru ekki þegar búnir að mynda sér skoðun með því að vera flutningsmenn að tillögu.