138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil taka skýrt fram að þótt ég sé þeirrar skoðunar að þetta mál eigi að ganga til annarrar nefndar en þingmannanefndarinnar felst ekki í þeirri skoðun minni vantraust á þingmannanefndina eða þá sem þar starfa, ekki frekar en að ég trúi því að þeir sem eru mér ósammála séu með skoðun sinni að lýsa yfir vantrausti á allsherjarnefnd þingsins eða formann hennar. Þetta snýst ekki um það. Þessi tillöguflutningur snýst ekki um það að reyna að svæfa málið eða tefja meðferð þess. Það snýst um að málið fái faglega umfjöllun og það er eðlilegt að fleiri þingmenn en þeir sem sitja í þingmannanefndinni fjalli um það.

Þeir hv. þingmenn sem sitja í þingmannanefndinni eru settir í þá stöðu að fjalla um eigin verk. Þeir eru búnir að gera upp hug sinn og það er eðlilegt að fleiri hv. þingmenn fái tækifæri til þess t.d. (Forseti hringir.) að gagnspyrja þá sérfræðinga sem þingmannanefndin fékk sér til ráðgjafar. Ég tel eðlilegt að málið gangi til allsherjarnefndar.