138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[10:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekkert sérstaklega að óska eftir atkvæðagreiðslu um þetta mál þar sem ég sé hver vilji meiri hluta þings er varðandi þessar tillögur. Ég vil hins vegar koma hér upp og ítreka þá ósk okkar sem erum þeirrar skoðunar að málið eigi að fara til umfjöllunar í fastanefnd þingsins, allsherjarnefnd, vegna efnis þess máls sem um ræðir. Ég vil því fara fram á það við þingmannanefndina og hv. formann þingmannanefndar að hann sendi málið til vandlegrar umsagnar hjá allsherjarnefnd, gefi allsherjarnefnd tíma til þess að fjalla um málið og kalla til eftir þörfum þá gesti og sérfræðinga sem nefndin kýs að gera. Með því vil ég ítreka við hv. formann þingmannanefndar að ég er ekki að lýsa vantrausti á hann heldur er ég, og ég ítreka það, að fara fram á það að tryggt verði að vönduð vinnubrögð verði viðhöfð hér.