138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[11:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar vinna þingmannanefndar fór af stað var mikið lagt upp úr því að góð samstaða yrði þar um vinnulag og niðurstöður. Það hefur ekki gengið eftir eins og við þekkjum. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að við reynum þó að ná samstöðu um flesta þætti í framhaldinu eins og mögulegt er og einn þeirra er málsmeðferðin. Ég tek þess vegna undir með þeim þingmönnum sem farið hafa fram á að allsherjarnefnd fái málið til umfjöllunar og ég held að það gæti orðið til þess að við næðum góðri sátt um málið eða í það minnsta mundi það auka líkurnar á því.

Síðan vil ég taka undir það að nú verði störfum þingsins hagað þannig að við getum fjallað í þessum sal um þau brýnu mál sem núna brenna á þjóðinni. Í hv. viðskiptanefnd er búið að biðja um fundi út af gengisdómnum og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við honum, (Forseti hringir.) út af Vestia-málinu, við sjáum að læknaskortur er orðinn vandamál á Íslandi og við munum fara (Forseti hringir.) fram á að það verði rætt í hv. heilbrigðisnefnd, og fleira mætti nefna. (Forseti hringir.) Það er afskaplega mikilvægt að við skipuleggjum (Forseti hringir.) störf þingsins þannig að hægt verði að ræða þetta.