138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[11:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það eru nokkuð skrýtnar sendingar sem hér koma fram. Það liggur fyrir að þingmannanefndin skrifaði sérstaka skýrslu sem ég held að allir þingmenn hafi mært. Rauði þráðurinn í þeirri skýrslu var að menn þyrftu að vanda sig meira, fara betur yfir hlutina og hlusta betur á röksemdir og málflutning annarra.

Er það það sem menn ætla leggja upp með núna? Ég vona það. Fyrir þá sem ekki þekkja til bendi ég á að þegar við sjálfstæðismenn leggjum til að mál séu rædd í nefndum eru ekki allir í þeirri nefnd sem mun fjalla um þetta mál. Mæla menn gegn því að við notum þá tímann í öðrum nefndum og förum yfir þau mál sem brenna á þjóðinni? Er það það sem menn gagnrýna hér? Þar skilur í það minnsta á milli okkar sjálfstæðismanna og þeirra sem gagnrýna okkur fyrir það, svo því sé algerlega til haga haldið. Við teljum að við eigum að nota tækifærið og vinna fyrir þjóðina.