138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[10:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það að hv. þingmaður getur haldið því fram með rökum að rannsókn á Icesave-málinu falli kannski ekki innan þess verksviðs sem þingmannanefndinni var ætlað að fjalla um, en úr því að hún leggur til að ráðist verði í rannsóknir á ýmsum þjóðþrifamálum tel ég einsýnt að þingið verði að taka afstöðu til þessarar tillögu sem var lögð fram 11. júní á þessu ári en hefur ekki fengist rædd.

Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að fyrst meiri hluti nefndarinnar telur ekki tímabært, þrátt fyrir að hann geti efnislega kannski tekið undir að það sé nauðsynlegt að rannsaka Icesave-málið, að ráðast í þessa rannsókn núna þá hljóti þau rök að eiga við um aðra þætti málsins eins og hvort það sé tímabært, úr því að lyktir þess liggja ekki fyrir, að ákæra ráðherra fyrir (Forseti hringir.) embættisfærslur (Forseti hringir.) í tengslum við þetta mál sem nefndin telur ekki tímabært að rannsaka. Menn hljóta að sjá (Forseti hringir.) þversagnirnar í þessum málatilbúnaði.