138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[10:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að nefndin hefur unnið mjög gott starf og það er ánægjulegt að svona breið samstaða varð um allar megintillögurnar. Athugasemd mín snýr bara að því þegar meiri hluti nefndarinnar segir að þær breytingartillögur sem hafa komið fram falli að mestu leyti utan verksviðs þingmannanefndarinnar. Ég verð að gera athugasemd við það því að þegar við settum lögin á sínum tíma sögðum við: Það er ekkert sem fellur fyrir utan þá skoðun sem hér þarf að fara fram. Rannsóknarnefndin hafði heimildir til að skoða hvaðeina sem hún vildi bæði fyrir og eftir hrunið og þegar þingmannanefndin kemur saman og rýnir skýrslu rannsóknarnefndarinnar fellur í raun og veru ekkert í mínum huga fyrir utan verksvið þingmannanefndarinnar. Ég er því ósammála þessari nálgun.