138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er til umræðu skýrsla þingmannanefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem skilað var í apríl og þá einnig nefndarálit þingmannanefndarinnar eftir umfjöllun, ekki á milli umræðna heldur í hléi sem gert var þar til, því hér á sér aðeins stað ein umræða um þessa skýrslu.

Ég ætla ekki að fara í smáatriðum yfir efni skýrslunnar eða niðurstöðu þingmannanefndarinnar. Ég ítreka þau orð mín að hér hafi ágætlega verið að verki staðið og að þær tillögur sem þingmannanefndin stendur saman um séu eðli málsins samkvæmt sterkustu niðurstöður hennar. Í ályktunartillögunni er, eins og hv. formaður nefndarinnar Atli Gíslason hefur sagt, kveðið sterkt að orði og það er full þörf á því. Ég vænti þess að þingmenn styðji það og styðji afgreiðslu þingsályktunartillögunnar um skýrsluna. Þar er einnig bent á nauðsynlega endurskoðun löggjafar margs konar og ekki er vanþörf á því heldur þó að auðvitað verði að vera ljóst að í þeirri endurskoðun þurfi menn að koma sér saman um markmiðin. Við getum öll verið sammála um að endurskoða allt milli himins og jarðar, en það kemur kannski ekki mikið út úr því ef við erum ekki sammála um hvaða markmið við eigum að setja okkur. Ég er ekki að segja að það komi ekki fram í umfjöllun um skýrsluna, ég er bara að segja að það er hinn pólitíski veruleiki þegar endurskoðunin hefst um hvert og eitt málefni.

Það er mjög brýnt að ráðist verði í þær umbætur sem lagt er til, bæði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í niðurstöðu þingmannanefndarinnar, að Alþingi Íslendinga geri. Það er nauðsynlegt, brýnt og löngu orðið tímabært að fara í umbætur á stjórnkerfi Íslands og þeim lögum sem hér eru nefnd til sögunnar. Það er í raun grátlegt, frú forseti, að þurft hafi allsherjarbankahrun með tilheyrandi afleiðingum fyrir samfélag, þjóð og ríkissjóð, til þess að Alþingi Íslendinga kæmi sér saman um nauðsynlegar breytingar á stjórnkerfinu sem við hefðum átt að fara í fyrir aldarfjórðungi til að vera í takt við þróun í þeim löndum sem við berum okkur hvað mest saman við.

Þetta er nú staðan sem við erum í og það verður að vinna úr henni eins og hún er. Og ég vona að hv. þingmenn og hv. Alþingi beri gæfu til að vinna úr þessum tillögum þannig að sómi sé að og að úr verði mikil lagabót hér á landi.

Þá kem ég að örfáum efnisatriðum sem ég vildi nefna vegna skýrslunnar. Ein spurning er til hv. formanns nefndarinnar, Atla Gíslasonar, og hún er á þann veg hvort í vinnu þingmannanefndarinnar hafi aldrei komið til greina að gera alþjóðlegan samanburð eða einhvers konar millilandasamanburð á viðbrögðum stjórnvalda, ríkisstjórna, við hruninu haustið 2008. Nærtækt dæmi er viðbrögð írsku stjórnarinnar sem lenti á svipuðum tíma í álíka hremmingum, þótt það hafi ekki verið fullkomlega sambærilegt, og reyndar aðrar ríkisstjórnir líka. Ég hygg að gott hefði verið að geta haft þann samanburð, ekki síst til að bera saman viðbrögð stjórnmálamanna í ólíkum löndum. Það hefði jafnvel verið hægt að biðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um álit eða skoðun á þessu efni. Ég geri mér grein fyrir því að þetta fer ekki fram núna en ég spyr hins vegar hvort þingmannanefndin hafi með einhverjum hætti velt þessu fyrir sér í sínu mikla starfi.

Annað efnisatriði sem hv. þingmenn hafa spurt hv. þm. Atla Gíslason út í í svörum og andsvörum er að þingmannanefndin leggur til ákveðna meðferð á öllum breytingartillögum sem liggja fyrir. Ég skal ekki útiloka að hægt sé að ná samstöðu um það á milli flokkanna hvernig við afgreiðum breytingartillögurnar, (Gripið fram í.) en ég er heldur ekki endilega viss um að allir hv. þingmenn eða þingflokkar séu sammála niðurstöðu þingmannanefndarinnar um það. Það þarf auðvitað að ræða hvernig best sé að koma því þannig fyrir að þær tillögur sem hér hafa verið settar fram, m.a. af þeirri sem hér stendur og hv. þingmönnum úr Samfylkingunni, komist til afgreiðslu og fái þá meðferð sem þær þurfa að fá. Það hlýtur að vera aðalatriðið og markmið okkar allra að það takist. Ég er, og tala nú bara fyrir sjálfa mig, tilbúin til að leggja mig fram um það ef það má verða til þess að samstaða náist um afgreiðslu skýrslunnar, en ég vil þó taka skýrt fram, frú forseti, að ég er ekki að lofa neinu fyrir hönd þingflokks míns. Og ég veit að hv. þm. Atli Gíslason skilur það.

Þetta er eitt af því sem kannski er að einhverju leyti tæknileg útfærsla á því sem hér liggur fyrir, en ýmsar breytingartillögur hafa komið fram, m.a. ein frá þingmönnum Samfylkingarinnar sem ég er 1. flutningsmaður að. Sú tillaga — ég kynnti efni hennar fyrir þingmannanefndinni eins og fram kom — er ítarleg útfærsla á efnisatriðum rannsóknar um einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans árið 2002 þar sem listað er upp hvaða spurningum þyrfti að svara í slíkri rannsókn, þótt auðvitað sé ekki útilokað að svara megi öðru því sem slík nefnd mundi vilja rannsaka eða kæmi upp í umfjöllun hennar. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur lagt fram að einhverju leyti samkynja breytingartillögu um einkavæðinguna og önnur atriði nær í tíma sem ekki er tekið á í breytingartillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar. Að sjálfsögðu má ræða það hvar þær eiga saman og hvar ekki og það er ekki þar með sagt að tvær tillögur þýði tvær rannsóknir heldur gæti mjög auðveldlega verið hægt að vinna þetta með öðrum hætti ef vilji þingmanna stendur til þess.

Við, flutningsmenn þessarar tillögu, erum eindregið þeirrar skoðunar að í þessa rannsókn eigi að fara og að markmið hennar verði að varpa ljósi á rás atburða þegar sala ríkisbankanna fór fram. Það hefur vissulega verið fjallað um það, m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en ekki liggja allar upplýsingar fyrir og við teljum mjög mikilvægt að fram komi hvenær og hvers vegna ákvarðanir voru teknar í því ferli og hverjir tóku þær. Markmiðið er að af þessu ferli megi draga réttan lærdóm og byggja á honum við setningu laga og reglna um einkavæðingu ríkisfyrirtækja sem væntanlega mun fara aftur fram einhvern tíma í framtíðinni. Ég mundi ekki útiloka það.

Þannig að það sé skýrt í máli mínu, þá er hér verið að biðja um ítarlega úttekt og alls ekki verið að varpa rýrð á það starf sem fram hefur farið, upplýsingarnar sem fram hafa komið eða þá sem hafa lagt það starf á sig og safnað þeim upplýsingum og komið þeim til skila, hvort heldur er í rannsóknarnefndinni eða þingmannanefndinni, heldur einungis verið að bæta við og bæta í þannig að við sem löggjafarsamkoma og íslenskt samfélag getum betur áttað okkur á hvað það var sem gerðist, hvað misfórst og hvað misfórst ekki, ef út í það er farið, og hvernig megi þá best haga þessu í framtíðinni.

Það er þetta sem við erum væntanlega að reyna að átta okkur á í þessari miklu vinnu sem Alþingi hóf í desember 2008, ef ég man rétt, þegar við samþykktum lögin um rannsóknarnefndina og síðan þegar þingmannanefndin hóf störf sín fyrir níu eða tíu mánuðum. Ég vildi bara nota þetta tækifæri til að bera fram þessa einu spurningu til formanns nefndarinnar og opna á það að sú meðferð breytingartillagna sem þingmannanefndin leggur til gæti komið til greina en til þess þarf, held ég, fólk að ræða mjög vel saman hér í dag, kvöld, nótt og á morgun.

Að síðustu, frú forseti, svo það gleymist ekki, þá er gert er ráð fyrir að kosin verði sérnefnd um úrbætur sem hafi eftirlit með þeim umbótum og því sem hér er lagt til. Ég held að gott væri fyrir lok þessarar umræðu að fá fram sjónarmið frá fulltrúum í þingmannanefndinni og öðrum þingmönnum um hvernig sú nefnd eigi að vera samansett og hvernig hún eigi að starfa, því hún hefur augljóslega grundvallarhlutverki að gegna í framhaldinu svo vel takist til.