138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:28]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ástæða þess að ég spurði um alþjóðlegan samanburð eða samanburð við önnur lönd öllu heldur er auðvitað sú að það sem hér gerðist gerðist ekki í neinu tómarúmi. Það gerðist í samhengi við þróun á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hrun banka víða um heim og við því urðu viðbrögð ríkisstjórna, eins og við þekkjum, misjöfn þó að flestar eða margar stjórnir færu þá leið að bjarga bönkunum með stórkostlegum framlögum úr ríkissjóði t.d. Ég nefni þetta svo að það hafi verið sagt hér að auðvitað er þetta þannig að þó að við séum að skoða hina íslensku hlið mála og hún skipti okkur mestu máli núna þá fór ekkert af því sem hér gerðist — ekki frekar en neitt af því sem við erum að gera þessa dagana — fram í einhverju tómarúmi og ekki í beinu sambandi við atburði í öðrum löndum og þá ekki síst þegar fjármálakerfið á í hlut.

Annars vildi ég þakka formanni fyrir svörin að öðru leyti. Ég tel það tilraunarinnar virði að leita samstöðu um afgreiðslu þessara tillagna ef það er einhver möguleiki, en eins og ég sagði áður verður það að koma í ljós í starfi okkar í dag og á morgun.