138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:30]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Atla Gíslasonar, formanns þingmannanefndarinnar, lagði ég ásamt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fram breytingartillögu við þá tillögu til þingsályktunar sem fylgir skýrslu þingmannanefndarinnar sem lögð hefur verið fram á þinginu og við ræðum. Sú breytingartillaga fjallar um það að samþykkt verði að ráðast í rannsókn á Icesave-málinu sem allir þekkja. Mælt er fyrir því að skipuð verði sjálfstæð og óháð rannsóknarnefnd sem rannsaka skuli embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá segir í breytingartillögunni að rannsóknarnefndin skuli leggja mat á það hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, hafi brotið starfsskyldur sínar eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir íslenska ríkið og íslensku þjóðina, og eftir atvikum leggja mat á það hverjir beri á því ábyrgð.

Þessi breytingartillaga er í samræmi við þingsályktunartillögu sem ég ásamt hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins lögðum fram á þskj. 1315 sem er mál 665. Hún er núna lögð til sem breytingartillaga úr því að þingsályktunartillagan hefur ekki fengist rædd á þinginu þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um að málið verði tekið til umfjöllunar.

Eins og sjá má í nefndarálitinu hefur þingmannanefndin fjallað um þessa tillögu og ég sé á nefndarálitinu að þar segir að innan nefndarinnar hafi ekki verið andstaða við að rannsókn á Icesave-málinu færi fram en meiri hluti nefndarmanna telur, samkvæmt því sem í nefndarálitinu segir, að það sé ekki tímabært að ráðast í þessa rannsókn fyrr en samningar við bresk og hollensk stjórnvöld um innlánsreikninga hafi verið leiddir til lykta.

Ég er út af fyrir sig ánægður með að heyra að innan nefndarinnar sé ekki andstaða við að ráðist verði í rannsókn óháðrar rannsóknarnefndar á Icesave-málinu en það veldur mér sannarlega vonbrigðum að meiri hluti nefndarinnar telji ekki tímabært að ráðast í slíka rannsókn. Ég hlýt að spyrja í ljósi þessa: Af hverju er ótímabært að rannsaka Icesave-málið en tímabært að ákæra fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands fyrir embættisfærslur sínar í tengslum við Icesave-málið? Ég fæ engan botn í það hvers vegna meiri hluti nefndarinnar telur að það sé ótímabært að ráðast í rannsóknina en tímabært að leggja til að ráðherrar í fyrri ríkisstjórn verði ákærðir í tengslum við embættisfærslur sínar varðandi Icesave-málið.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér, úr því að hv. nefnd komst að þessari niðurstöðu um þessa tilteknu tillögu, hvort nefndin telur í ljósi þess sem segir í nefndarálitinu að sú rannsókn sem rannsóknarnefnd Alþingis réðist í og er mikil og gagnmerk rannsókn og úttekt á Icesave-málinu og þeirri lagaumgjörð sem um innstæðutryggingar gildir, hafi verið ótímabær. Ég tel svo ekki vera, ég tel í ljósi þess sem gerst hefur að þingið skuldi þjóðinni að ráðist verði í þessa rannsókn. Það er ekki eftir neinu að bíða í því, virðulegi forseti.

Þingmannanefndin leggur til að ráðist verði í ýmsar rannsóknir, en ég tel að Icesave-málið sé það stórt í sniðum og varði svo mikla þjóðarhagsmuni að það mál eitt og sér standi undir því að í slíka rannsókn verði farið í samanburði við þær rannsóknir sem þingmannanefndin leggur til að ráðist verði í, samanber rannsókn á sparisjóðunum og lífeyrissjóðunum. Icesave-málið er miklu stærra mál með fullri virðingu fyrir hinum. Ég tel að alþingismenn hafi í gegnum tíðina beðið um rannsóknir af minna tilefni.

Það þarf í sjálfu sér ekki að fara yfir Icesave-málið að öðru leyti en því að það varðar, eins og allir þekkja, einhverja mestu þjóðarhagsmuni sem stjórnvöld hér á landi hafa þurft að takast á við og eins og ég nefndi áðan fór rannsóknarnefnd Alþingis ítarlega yfir það mál í skýrslu sinni. Þó svo að sú umfjöllun muni án efa nýtast hinni nýju rannsóknarnefnd, sem hér er lagt til að komið verði á fót, vel í störfum sínum þá snýr sú rannsókn ekki nema að hluta til að þeim atriðum sem sú rannsókn sem þessari tillögu er ætlað að hrinda í framkvæmd snýr að, þ.e. embættisfærslum, ákvörðunum og samskiptum íslenskra stjórnvalda við bresk og hollensk stjórnvöld eftir hrun bankakerfisins. Rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis, sem leidd var af doktor Páli Hreinssyni, laut bara að atburðum sem áttu sér stað fyrir bankahrun. Ég tel og við flutningsmenn þessarar tillögu að það séu komin fram svo mörg veigamikil og efnisleg rök fyrir því að í þessa rannsókn verði ráðist að hjá því verði ekki komist.

Það má í sjálfu sér tiltaka fjölmargar röksemdir fyrir því að nauðsynlegt sé að ráðast í slíka rannsókn. Svo ég nefni mína skoðun tel ég að það sé alveg ljóst að með undirritun lánasamninganna 5. júní 2009 og viðaukasamninganna frá 19. október 2009 hafi ríkisstjórnin gerst sek um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu sinni fyrir íslenska ríkið og íslenska skattgreiðendur. Ég tel að með undirritun sinni á samningana bendi ýmislegt til þess að ríkisstjórnin hafi farið út fyrir það samningsumboð sem hún fékk frá þinginu og ekki virt þau sameiginlegu viðmið sem henni bar að framfylgja samkvæmt ákvörðun þingsins.

Í þriðja lagi tel ég mikilvægt að rannsakað verði hvort íslensk stjórnvöld hafi í samningaviðræðunum fallið frá lagalegum rétti Íslendinga í samningaviðræðum sínum við Breta og Hollendinga.

Í fjórða lagi vil ég nefna að þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er lesin, og þá sérstaklega 17. kafli þeirrar skýrslu, og farið er yfir þau lögfræðilegu rök og þá lögfræðilegu úttekt sem þar kemur fram, mjög vönduð, á tilskipanakerfi Evrópusambandsins hvað varðar innstæðutryggingar, tilvísanir í erlenda fræðimenn um inntak þessara reglna, hlýtur maður að spyrja sig hvers vegna í ósköpunum íslenskum stjórnvöldum kom til hugar að undirrita þá lánasamninga, sem síðar komu svo til umfjöllunar í þinginu en voru auðvitað felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu af 98% þeirra Íslendinga sem tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Þegar þetta er allt saman borið saman hljóta menn að komast að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að rannsaka málið.

Loks vil ég nefna að komið hafa fram opinberlega upplýsingar um það og yfirlýsingar frá þingmönnum stjórnarflokkanna sem benda til þess að ráðherrar í ríkisstjórninni hafi undirritað lánasamningana þrátt fyrir að hafa verið fullvissaðir um að fyrir því væri ekki meirihlutastuðningur á Alþingi. Ég vísa til yfirlýsinga hv. þm. Lilju Mósesdóttur þar um, sem eru alveg skýrar hvað þetta atriði varðar. Hafi það verið gert tel ég að hæstv. ráðherrar hafi verið á mjög þunnum ís lagalega í embættisfærslum sínum. Þar við bætast auðvitað ýmsar yfirlýsingar sem hér hafa verið gefnar eins og yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra þann 3. júní 2009 þegar hann var spurður að því hvort til stæði að undirrita lánasamninga sem hann taldi að stæði ekki til en var svo gert tveimur dögum síðar, þann 5. júní. Allt þetta réttlætir að í slíka rannsókn verði farið.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja það að þingið hefur óskað eftir rannsóknum af minna tilefni. Icesave er líklega stærsta og umdeildasta deilumálið sem komið hefur inn fyrir dyr þessarar stofnunar. Þingið þarf að velta því fyrir sér í hvaða stöðu það er felli það þessa tillögu. Hvaða skilaboð er Alþingi Íslendinga að senda umheiminum og þar á meðal viðsemjendum okkar (Forseti hringir.) ef það fellir tillögu eins og þá sem hér er mælt fyrir?