138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir ágæta ræðu og sérstaklega um Icesave. Mér fannst hins vegar vanta að geta um kannski meginatriðið í málinu sem er það að þegar hæstv. ríkisstjórn fól hæstv. fjármálaráðherra að skrifa undir var það eiginlega tæknilega ómögulegt að hún hafi verið búin að lesa samninginn og öll þau fylgigögn sem fylgdu með, alveg sérstaklega vegna þess að hann er á ensku og sumir ráðherranna eru ekki mjög sleipir í því tungumáli. Það má færa rök fyrir því að menn hafi hreinlega ekki vitað hvað þeir voru að fela hæstv. fjármálaráðherra að skrifa undir þegar hann skrifaði undir 6. júní 2009, sem er ákveðin dagsetning og ákveðinn verknaður öndvert við það sem við erum að kæra hæstv. ráðherra fyrir núna sem er eitthvað óljóst einhvern tíma. Þeir eru kærðir fyrir það sem þeir gerðu ekki. Þarna liggur þó alla vega fyrir mjög ákveðinn gjörningur þar sem fjármálaráðherra skrifar undir og honum var falið það af ríkisstjórninni og ríkisstjórnin verður þá að svara því í svona rannsókn hvort hún hafi verið búin að kynna sér þennan samning í hörgul, sem er eiginlega útilokað því að það tók mig margar vikur að kynna mér þennan samning í hörgul og það var eiginlega ekki fyrr en eftir hálft ár sem ég var farinn að skilja hann svona sæmilega.