138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það eru auðvitað fjölmörg atriði sem tengjast Icesave-málinu sem nauðsynlegt er að rannsaka. Þess vegna er þessi tillaga lögð fram.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það hefur líklega verið tæknilega ómögulegt fyrir hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni að kynna sér í hörgul efnisatriði Icesave-samninganna áður en þeir veittu umboð til þess að undirrita samningana. Ég man ekki betur en það hafi verið uppi ágreiningur um það í ríkisstjórninni hvort slíkt umboð hafi yfir höfuð legið fyrir, a.m.k. frá einum hæstv. ráðherra sem nú er afturgenginn í ríkisstjórninni. Hann sagði sig úr ríkisstjórninni vegna þeirrar málsmeðferðar sem átti sér stað þá. Þar fyrir utan, sem ég nefndi í ræðu minni, liggja fyrir yfirlýsingar um að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki haft fullvissu fyrir því að hann hefði meirihlutastuðning á Alþingi fyrir slíkri undirritun þegar hann ákvað að undirrita samninginn. Gerð er grein fyrir því í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu sem ég hef flutt um þetta mál að fimm þingmenn úr þingflokki Vinstri grænna hafi lýst andstöðu við það að Icesave-samningarnir yrðu undirritaðir. Samt undirritaði hæstv. fjármálaráðherra samninginn.

Ég spyr: Samkvæmt hvaða lögum og lagaákvæðum telur hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) sér stætt að undirrita slíkar fjárskuldbindingar fyrir hönd íslenska ríkisins þegar hann veit fyrir fram að (Forseti hringir.) hann hefur ekki umboð til þess úr sínum eigin þingflokki?

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.)