138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu og umfjöllun velti ég því fyrir mér hvort við uppfyllum skilyrðin sem ég tel að flestir séu sammála um að við höfum ekki gert í aðdraganda hrunsins eða missirunum fyrir hrunið. Ég held að við séum sammála um að það hefði verið þörf á gagnrýninni hugsun og að hjarðhegðunin væri ekki jafnáberandi í þjóðfélaginu og raun ber vitni. Ég held því miður að við höfum lítið lært. Ég held að við séum því miður alltaf að detta í sama pyttinn, hjörðin hleypur í aðrar áttir og gagnrýna hugsunin er ekki eins og hún ætti að vera. Ég held því miður að þetta séum við að upplifa þessa dagana og þá er ég ekkert að ásaka einn eða neinn. Ég er ekki að halda því fram að þingmannanefndin né rannsóknarnefndin hafi gert annað en það sem fyrir þær var lagt. Þær lögðu sig allar fram. Þessi plögg eiga það sammerkt með öllu öðru að hafa ekki náð fullkomnun. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að fara vel yfir málin.

Við erum og munum ganga frá hlutum á gríðarlegum hraða. Ég held að það liggi fyrir að það verði gert. Þótt það sé alls ekki markmiðið að hanga yfir hlutunum hefði verið skynsamlegra að mínu áliti að fara betur yfir mörg mál og klára þetta þannig að sem breiðust samstaða væri því, í það minnsta vil ég trúa því, að í flestum málunum eru hv. þingmenn sammála. Síðan er spurningin hvort þetta verði afgreitt með þeim hætti sem við getum verið ánægðust með. Hvort við getum verið sátt við það hvernig staðið er að verki og hverju við skilum frá okkur. Það sem við gerum mun hafa mikil áhrif um alla framtíð.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að meiri hluti hv. þingmannanefndar hefði ekki notað tækifærið og klárað að ganga frá því að nota hugmyndirnar sem komið hafa fram um rannsóknir sem ég held að flestar, þetta eru nokkuð margar breytingartillögur, ég man ekki eftir neinni svona fljótt á litið, í það minnsta séu vel þess virði að skoða gaumgæfilega. Ég held af mörgum ástæðum hefði verið skynsamlegt að ganga þannig frá að við mundum setja rannsóknirnar af stað í tengslum við lok á störfum þingmannanefndarinnar. Að vísu tel ég að í framtíðinni ættum við að hafa það almenna reglu að rannsaka mál ef upp koma málefnaleg rök fyrir því að það þurfi að fara yfir einstaka hluti. Í því þurfa ekki að vera tímamót heldur erum við fyrst og fremst að sinna eftirlitshlutverki þingsins. Þetta er mikilvægur tímapunktur. Við ættum að hafa nægar upplýsingar frá rannsóknarnefnd Alþingis og umræðunum hér til að ákveða hvar við viljum bera niður og hvað við viljum skoða. Mörg málanna sem við ræðum og rannsökum og formaður hv. þingmannanefndar, hv. þm. Atli Gíslason, talar um að sé gott að koma með á þingið í haust. Mest af þessu kom á þinginu í vor og annaðhvort hefur ekki fengist að tala fyrir því eða það hefur sofnað í nefnd.

Við höldum þeim vinnubrögðum áfram. Það skiptir miklu máli að við getum haldið því áfram á sama tíma og við erum að ræða þessi mál sem eru mjög mikilvæg. Hins vegar eru gríðarlega alvarlegir hlutir í gangi í þjóðfélaginu sem ekki hefur tekist að vinna á. Við horfum upp á stöðu heimilanna og núna liggur fyrir að fjöldi fjölskyldna missir húsnæði sitt. Þetta er þvert á það sem lagt var upp með og menn töluðu um eftir hrunið. Því miður höfum við alls ekki, og því fer víðs fjarri, náð þeim árangri sem til var ætlast. Við erum heldur ekki með neinar áætlanir hvernig við ætlum að leysa þetta. Atvinnumálin eru önnur mál sem ég ætla ekki að fara í en það eru risamál sem bíða þingsins. Þess vegna hefði verið skynsamlegt að ná sátt um hvernig menn vinna þessa hluti og hvernig þeir ganga frá þeim.

Mér finnst miður að meiri hluti hv. þingmannanefndar skyldi ekki ganga frá málum og taka inn í sínar breytingartillögur rannsóknir og áætlanir sem menn hafa lagt hér upp með.

Ég tek undir allt sem fram kom hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Sömuleiðis hlustaði ég á hv. þm. Pétur Blöndal ræða breytingartillögur sínar, m.a. breytingartillögu sem hljómar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að erlend matsfyrirtæki, lánveitendur bankanna, stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu, sem og veila í hlutabréfaforminu.“

Virðulegi forseti. Ef við samþykkjum ekki að aðilar sem fjármögnuðu bankastarfsemi hér á landi og matsfyrirtækin beri ábyrgð er það hreinn og klár heimóttarskapur. Þá þorum við ekki að segja sannleikann vegna hræðslu eða minnimáttarkenndar sem á allra síst heima á þjóðþinginu.

Ég er 1. flutningsmaður þriggja tillagna sem ég vil gera að umtalsefni. Fyrst er það sjálfstæð og óháð rannsókn á verklagi og ákvarðanatöku íslenskra fjármálafyrirtækja frá gildistöku laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til loka ársins 2009. Rannsóknin taki til verklags og ákvarðanatöku við afskriftir krafna á hendur fyrirtækjum og hvort og hvernig afskriftir og aðra fjármálalegar fyrirgreiðslur fyrirtækjanna kom til.

Skoðað verður tímabil sem var eftirlitslaust eftir hrun bankanna og fram að síðustu áramótum. Það kom hvað eftir annað fram í fjölmiðlum að misjöfn afgreiðsla væri á málum, bæði fyrirtækja og skuldugra einstaklinga. Það þýðir á íslensku, virðulegi forseti, gríðarlegar eignatilfærslur. Við getum ekki litið svo á að þetta komi okkur ekki við og ætlum því ekki að líta á þetta. Þarna voru bankarnir nokkurn veginn munaðarlausir. Starfsmenn sem höfðu með málið að gera vissu að þeir yrðu þar stutta stund. Á þeim tíma er afskrifað, menn fá fjármálalega fyrirgreiðslu, ekki í milljónum heldur hundruðum milljóna og milljörðum. Það er fráleitt að við höngum yfir þessu máli. Ég ásamt fleiri hv. þingmönnum flutti mál sem hefur legið í viðskiptanefnd í fleiri mánuði og ekki verið formlega tekið fyrir. Ef við ætlum ekki að samþykkja tillöguna eru skilaboðin sérkennileg. Ég veit ekki hvernig við eigum að túlka þau.

Annað, við leggjum til sjálfstæða óháða rannsókn um ákvörðun stjórnenda og stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að grípa til sérstakra ráðstafana vegna aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þar er vísað í lögin. Einnig vísa ég sérstaklega til þess að mikil umræða hefur verið um SPRON, Sparisjóðabankann, VBS fjárfestingarbanka, Byr, Sögu Capital, Askar Capital, Straum o.s.frv. og þetta er alltaf í fjölmiðlunum. Það eru alls konar kenningar um að misjafnlega hafi verið staðið að verki. Ætlum við að láta tortryggnina grassera og ræða þetta næstu árin og áratugina án þess að neinn viti hvað er satt og rétt í þessu eða ætlum við að skoða þetta?

Þarna er svo sannarlega um stórar fjárhæðir og hagsmuni að ræða. Ætlum við að ala á tortryggninni eða ætlum við að skoða þetta? Ég segi að þingið eigi að láta skoða þetta.

Ég legg til, ásamt öðrum hv. þingmönnum, sjálfstæða og óháða úttekt á stjórnkerfi landsins. Rannsóknin taki til starfsemi og skipulags ráðuneyta og stofnana og hafi það að markmiði að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Þetta er mikilvægt, hvort sem við ræðum hrun eða ekki. Það er ljóst að það voru og eru gallar í stjórnkerfi landsins. Því miður er sérhópur hæstv. forsætisráðherra ekki að taka á málunum eins og gera ætti. Við verðum að fara í þessa vinnu, það er ekkert flóknara en það. Stóra málið er að við ættum að horfa (Forseti hringir.) fram á veginn og þá þurfum við að laga hina ýmsu hluti, þar á meðal stjórnkerfi landsins.