138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit um skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá þeirri sömu hv. þingmannanefnd. Ég hef lýst því áður í andsvörum að ég hafi orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum með að hún tók ekki tillit til neinnar af þeim breytingartillögum sem fram hafa komið og eru þó margar mjög gagnmerkar. Hér var rætt um Íbúðalánasjóð, rætt var um að hæstv. ráðherrar eigi ekki að vera þingmenn o.s.frv., margt sem ég tel vera mjög til bóta.

Þegar upp er staðið, frú forseti, mun standa upp úr allri þessari miklu vinnu rannsóknarnefndar og síðan hv. þingmannanefndar tillaga til þingsályktunar sem væri þá orðin þingsályktun Alþingis. Það er mjög mikilvægt að þar komi eitthvað bitastætt fram. Ég hef nefnt það hér að það sem kemur fram í tillögu til þingsályktunar er ekki nógu bitastætt. Þegar menn horfa á þessa þingsályktunartillögu, eftir segjum 20 ár eða 10 ár, þá stendur, með leyfi frú forseta:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni.“

Hvernig var þróunin? Var hún ljómandi góð? Var ekki allt í fínu? Er eitthvað sem menn ætluðu að gera eitthvað, já? Menn vita ekkert um hvað málið snýst. Málið snýst um hrunið. Mér finnst það dálítið undarlegt að í tillögu til þingsályktunar er ekki minnst neins staðar á hrunið sem varð í október 2008. Það er meginþemað og ég vildi að sett yrði inn breytingartillaga, sem var varpað burt sísvona, það var ekki rökstutt neitt, orðuð á þennan veg:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þá þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára sem leiddi til hruns bankanna haustið 2008 og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni við brýnar úrbætur.“

Það er það sem verið er að tala um. Við erum að tala um að þetta sé vegna hrunsins og við ætlum að fara í brýnar úrbætur. Þessu var varpað til hliðar eins og öllu öðru, ekki einu sinn eytt á það orðum. Það er ekkert í þessari þingsályktunartillögu sem vísar í hrunið af því að menn eru svo fastir í því að þetta sé það sem allir eru að tala um en það verður ekki þannig eftir 10–20 ár, vonandi ekki.

Ég er með breytingartillögu og ætla að fara í gegnum það, frú forseti. Hér stendur, með leyfi frú forseta:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins séu teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.“

Hvað svo? Þetta segir mér ekki neitt. Þetta segir mér akkúrat ekki neitt. Það er ekkert skilgreint nánar hvað á að gera. Ég vildi bæta þarna við: Það verði gert meðal annars með því að þingmenn og þingnefndir semji þau frumvörp sem lögð eru fram á Alþingi eða ritstýri þeim. Þetta hefur verið meginljóður — frá því að ég kom á þing hef ég tekið eftir því aftur og aftur að Alþingi er afgreiðslustofnun. Sumir hafa sagt að við séum eins og fólk á kassa. Hvað erum við að gera? Við ræðum frumvörpin fyrst þegar þau koma inn og svo sitjum við í nefndum þingsins og förum í gegnum það hvernig gangi að framkvæma lögin, frumvarpið sem kemur frá ríkisstjórninni, sem kemur frá þeim sem eru að framkvæma. Við spyrjum alls konar aðila: Hvernig haldið þið að gangi að framkvæma lögin um samkeppniseftirlit? En starfsmenn Samkeppnisstofnunar hafa jafnvel samið lögin. Þetta er stórhættulegt. Það er verið að framselja vald kjörinna þingmanna til embættismanna sem eru ekki kjörnir. Þeir gleyma oft og tíðum einhverju í því sem þeir setja upp af því að það hentar þeim eða þeir bæta einhverju inn í sem enginn sér en þeir þekkja í krafti sérfræði sinnar og þeir eru hugsanlega að smíða vopn í baráttunni við borgarana. Ég tel að þingmenn verði að breyta þessu vinnulagi.

Ég vil líka að inn komi ný málsgrein til að undirstrika enn frekar sjálfstæði Alþingis, að Alþingi álykti að það skuli starfa samkvæmt eigin fjárlögum og að þingmenn verði á launaskrá hjá Alþingi. Það er alveg fráleitt, frú forseti, að meira að segja frú forseti er á launaskrá hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það er einu sinni þannig að ef menn vita hver borgar grautinn þeirra þá eru þeir kannski veikari í gagnrýninni. Alþingi á að hafa sérfjárlög og bera ábyrgð á þeim sjálft, þá verður ábyrgðin miklu meiri. Það er hægt að gagnrýna Alþingi fyrir fjárlögin en nú er það ekki hægt af því að þetta eru fjárlög hæstv. fjármálaráðherra.

Í breytingartillögunum er þingmannanefndin með réttu að veita mönnum ákveðna ábyrgð. Nefndin þykist hafa rannsakað bankahrunið svo vel að hún viti hvað olli því. Ég veit það ekki enn og fjöldinn veit það ekki. En þarna er sagt:

„Alþingi ályktar að stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækjanna á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu.“

Þeir gleyma því að bankarnir hefðu ekki haft neinum peningum úr að spila í bönkunum í þessar æfingar sínar ef ekki hefðu verið erlend matsfyrirtæki sem gáfu þeim mjög góða einkunn og ef ekki hefðu verið lánveitendur sem lánuðu óhemjufé sem ekki fór til Íslands, þessir peningar fóru ekki til Íslands, eða réttara sagt: fóru strax út aftur. Hrunið varð ekki á Íslandi. Hrunið átti miðstöð á Íslandi en hrunið varð um allan heim. Hrunið er í London, hrunið er í Helsinki, í Osló og í Stokkhólmi. Þar var hrunið en miðstöðin var á Íslandi. Íslensku bankarnir voru, ég vildi segja, misnotaðir af erlendum lántakendum til glannalegra fjárfestinga um alla Evrópu og meira að segja til Makaó. Og að segja að stjórnendurnir beri mesta ábyrgð einir og gleyma þeim stóra lið sem eru erlendu matsfyrirtækin og lánveitendur bankanna finnst mér vægast sagt vafasamt.

Ég er með nokkrar breytingartillögur við það sem stendur að ráðast eigi í breytingar og í kjölfar þess eigi hæstv. ríkisstjórn að koma að málinu. Ég er á móti því, ég vil að það sé tekið út. Þetta á alfarið að vera verkefni Alþingis og „forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar“ vil ég að falli út. Þetta er ekki málefni framkvæmdarvaldsins Við ætlum að taka á okkar eigin málum sjálf, hv. þingmenn.

Það þarf ekki bara að endurskoða löggjöf í starfsemi á fjármálamarkaði. Það þarf alveg sérstaklega að skoða lög um hlutafélög og einkahlutafélög því að þar eru stórar veilur. Ég hef meira að segja sannað að það er veila í hlutabréfaforminu sjálfu sem gildir um allan heim. Hægt er að búa til heilmikla keðju af fyrirtækjum sem sýnast vera með eigin fé — endurskoðendur gefa því vottorð um að það sé eigin fé í fyrirtækjunum — en það er ekki króna í öllu dæminu. Svo þegar þetta verður fyrir áfalli og hrynur þá hrynur þetta allt saman eins og spilaborg og það er ekkert nema loft inni í því, ekkert efnislegt. Ef menn ætla að horfa fram hjá þessu eða bara gleyma því, eða fatta það ekki eða skilja það ekki, er illa komið, ef menn eru að ráðast á sjúkdóm og lækna hann en sjúkdómsgreiningin er ekki rétt, það er mjög alvarlegt.

Ég vil líka að fall sparisjóðanna verði fært aftur til ársins 2000 en ekki 2004 vegna þess að það var árið 2000 sem fyrirtækið Meiður var stofnað af SPRON og fleiri eigendum Kaupþings og Kaupþingi sjálfu og Meiður varð síðan Exista. Ég vil endilega að starfsemi sparisjóðanna sé rannsökuð, ekki bara aftur til 2004 heldur aftur til ársins 2000. Það er ekki hlustað á svona rök. Það er ekki hlustað á þau, þetta er bara samtengt. Þessu er varpað frá í nefndinni eins og það skipti ekki máli. Svo vildi ég að vátryggingafélögin yrðu skoðuð því að þau voru líka að gera alls konar hluti eins og komið hefur í ljós. Ríkissjóður er búinn að bjarga Sjóvá og ég vil að það sé rannsakað.