138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langaði að koma upp vegna þess að hv. þingmaður er ekki alls kostar ánægður með hvernig nefndin fjallar um þær breytingartillögur sem hann hefur lagt fram.

Mig langaði að bæta því við, af því að þingmanninum finnst skorta á að vísað sé til hrunsins og að rökstuðningurinn um það sé þunnur í nefndarálitinu, að afstaða nefndarinnar er sú að það komi fram í textanum á tillögu til þingsályktunar að fjallað sé um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010 og það segi í rauninni það sem segja þarf varðandi efni og ástæður þessarar þingsályktunartillögu.

Tillögurnar sem komu frá hv. þingmanni eru margar hverjar gagnmerkar. Hins vegar hélt þingmannanefndin sig við að það þyrfti að vera sátt í nefndinni, allir nefndarmenn sammála, um þær tillögur sem færu í gegn og niðurstaðan liggur fyrir.