138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma upp í lok þessarar umræðu um skýrslu þingmannanefndarinnar og fara aðeins yfir þau helstu atriði sem ég tel vera gríðarlega mikilvæg. Mig langar að nota tækifærið og þakka þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna og eins ítreka enn og aftur þakkir til samþingmanna minna í þingmannanefndinni. En ég tel rétt að vekja aftur sérstaka athygli á þeirri tillögu til þingsályktunar sem þingmannanefndin hefur sameiginlega lagt fram og má finna í skýrslunni á bls. 15. Þar eru dregnar saman þær helstu ályktanir sem við teljum að Alþingi eigi að draga af þeim atburðum sem urðu hér í kjölfar bankahrunsins og mótast af niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis.

Nokkrar breytingartillögur við skýrsluna hafa komið fram í þinginu og hafa verið til umræðu í dag. Margar þeirra eru mjög góðar og sumar hverjar gæti ég stutt en vegna þess að þingmannanefndin einsetti sér að ná sátt um öll atriði er afgreiðsla nefndarinnar sem greinir í nefndaráliti sú að taka þær breytingartillögur ekki inn í tillögu þingmannanefndarinnar. Ég hefði kosið, vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið um skýrsluna og einkavæðinguna sérstaklega og nauðsyn þess að rannsaka ferlið betur, að sjá þingmenn allra flokka setjast saman niður og móta sameiginlega tillögu um hvernig slík rannsókn ætti að fara fram. Ég hef marglýst því yfir í þessum stól að ég telji málið varðandi einkavæðinguna nægjanlega rannsakað. Við í þingmannanefndinni treystum okkur alla vega á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir til að draga af þeim mjög þungorðar ályktanir og setja fram varðandi einkavæðinguna. Ég hef því spurt þá sem ekki telja nóg að gert varðandi rannsóknir hverju slíkar rannsóknir eigi að skila og hvaða viðbrögð þær eigi að vekja. Minn skilningur er sá að þetta ferli hafi allt verið sett af stað, þ.e. þegar Alþingi setti rannsóknarnefnd Alþingis á fót til að gera upp hrunið og draga fram þær helstu staðreyndir sem ollu því að bankarnir hrundu. Jafnframt þegar þingið fól níu manna þingmannanefnd að móta viðbrögð Alþingis við þeirri skýrslu var ég algjörlega sannfærð um að þingið ætlaði sér að klára þetta uppgjör og horfa svo til framtíðar. Það ber okkur að gera og við eigum að líta á það sem okkar stærsta viðfangsefni. Því miður virðist það ekki vera niðurstaðan.

Ég skora enn og aftur á þá hv. þingmenn sem hafa lagt fram ólíkar breytingartillögur varðandi einkavæðinguna að setjast niður. Fulltrúar frá öllum flokkum hafa lýst því yfir að hægt sé að ná saman um hvernig að slíku sé staðið og ég hvet þingheim enn og aftur til að fara í þá vinnu. Ef við ætlum að samþykkja breytingartillögu þar sem lagt er upp með enn eina skoðunina á einkavæðingarferlinu sem ekki allir geta fellt sig við, vegna þess að ég held því fram að þær tillögur sem hafa komið fram, eins ágætlega orðaðar og þær eru, séu ekki í samræmi við öll þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni varðandi einkavæðinguna, þá tel ég þegar niðurstaða úr slíkri rannsókn liggur fyrir komi einfaldlega fram enn ein tillagan um enn eina skoðunina á þessu ferli. Hversu lengi ætlum við að vera föst í fortíðinni? Ég hvet menn því til að setjast saman yfir þetta, við höfum enn þá smátíma, og ég treysti því að þingið hafi þroska til að fara í þá vinnu.

Mig langar að fara yfir þingsályktunartillöguna á bls. 15 og ég tel, frú forseti, að þessi þingsályktunartillaga sé mjög harðorð. Það er jafnframt brýnt að þingheimur reyni að sýna samstöðu og standi saman að afgreiðslu tillögunnar. Við drögum saman í örfáum línum þessar helstu meginályktanir sem við teljum að Alþingi þurfi að horfast í augu við og samþykkja til að við getum klárað þetta uppgjörsferli á skýran hátt.

Hér er t.d. lagt til að Alþingi álykti að eftirlitsstofnanir hafi brugðist. Það eru stór orð en við drögum þá ályktun af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við teljum jafnframt mikilvægt að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, skorti á verklagi og skorti á formfestu. Það er rauði þráðurinn í skýrslunni.

Hins vegar eru allir meðvitaðir um í þinginu og það kemur fram í umræðunni að stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu. Það er augljóst af lestri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að það er meginniðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis. Þess vegna drögum við það fram og setjum í þessa tillögu til þingsályktunar.

Mikið hefur verið fjallað um þann þátt skýrslunnar frá þingmannanefndinni sem snýr að starfsháttum þingsins og sitt sýnist hverjum, hvort við göngum nægilega langt varðandi útfærslur á því hvernig við sjáum fyrir okkur að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar og hvernig Alþingi geti varið og styrkt sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk. Það er einfaldlega þannig að við erum fulltrúar ólíkra flokka og þrátt fyrir að við getum náð saman um helstu ályktanir sem við viljum draga af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis verðum við aldrei 100% sammála um útfærslur á öllum atriðum. Ástæðan fyrir því að við erum ekki öll í sama flokki er væntanlega sú að við erum ekki sammála um allt. Hins vegar trúi ég því að ef við erum með þessi leiðarljós, búin að samþykkja þau, fulltrúar allra flokka, gangi okkur betur að horfa fram á veginn, þá gangi okkur betur að einbeita okkur að því að horfa til þeirra sameiginlegu markmiða sem sett eru fram í þessari skýrslu.

Við teljum jafnframt brýnt að Alþingi álykti að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggja áherslu á að draga af henni lærdóm. Ég vonast svo sannarlega til að við öll sem störfum í þinginu tileinkum okkur þann lærdóm sem draga má af skýrslunni að þessu leyti vegna þess, eins og margoft hefur komið fram, að traust á Alþingi hefur minnkað. Við verðum að líta í eigin barm og sjá hvað við getum gert betur. Við leggjum til að Alþingi álykti að mikilvægt sé að allir horfi gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið. Það hlýtur að vera megintilgangurinn með þessu öll saman. Ég vona svo sannarlega að við tökum þetta alvarlega og að við einbeitum okkur að því þegar við erum búin að koma fram með þessi leiðarljós og meginmarkmið að draga fram þá framtíðarsýn sem við sjáum fyrir íslenskt samfélag og gerum það á grundvelli reynslunnar og byggjum á þeirri reynslu.

Fram hafa komið, eins og ég sagði áðan, margar gagnmerkar breytingartillögur, þar á meðal sú er snýr að Íbúðalánasjóði og var rædd hér áðan. Ég lýsti því yfir þegar umræðan var í gangi í síðustu viku að þetta væri tillaga sem ég gæti stutt og ég teldi vera mjög mikilvæga og nauðsynlega. Hins vegar var algjörlega ljóst að ekki var samstaða í þingmannanefndinni um að samþykkja hana óbreytta og þess vegna gerðum við hana ekki að okkar. Mér finnst hún mjög athyglisverð og vonast til að einn daginn verði hún að veruleika.

Þá hefur Sigurður Kári Kristjánsson lagt fram tillögu varðandi Icesave og rannsókn á því máli. Það þingmál var lagt fram fyrr á þessu þingi og ég er einn flutningsmanna. Það er því tillaga sem ég tel að eigi að ná fram að ganga þótt þingmannanefndin hafi ekki gert hana að sinni.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að umræðan um skýrslu þingmannanefndarinnar hefur náð að haldast á mjög málefnalegum nótum. Flestallir hafa getað tekið undir mjög margt í skýrslunni og þótt við verðum auðvitað aldrei öll 63 sammála um alla hluti vona ég að tillagan og skýrsla þingmannanefndarinnar geti verið sá grunnur sem við sameiginlega horfum til þegar við byggjum til framtíðar.

Mig langar í lokin, frú forseti, að vekja athygli á nokkrum tillögum nefndarinnar vegna þess að því hefur verið haldið fram í umræðunni að við hefðum ekki tekið nægilega sterkt til orða og í rauninni ekki náð að taka á því verkefni að kveða upp áfellisdóm yfir vinnubrögðum fyrrverandi stjórnvalda. Af því tilefni er nauðsynlegt að koma því á framfæri að þingmannanefndin tekur mjög sterkt til orða og tekur á öllum þeim atriðum sem fram hafa komið í umræðunni að skorti á. Mig langar að vísa sérstaklega til bókunar okkar á bls. 30, þ.e. ályktunar þingmannanefndarinnar varðandi einkavæðinguna. Hér segir, með leyfi forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna.“

Hér er tekið sterkt til orða. Þingmenn allra flokka standa að þessari ályktun þannig að hér er tekið á þeim þætti málsins sem margir hverjir hafa haldið fram í umræðunni að sé meginorsök hrunsins.

Þá er jafnframt að finna á bls. 24 ályktanir þingmannanefndarinnar varðandi efnahagsmálin. Hér segir, með leyfi forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að mikinn lærdóm megi draga af þróun efnahagsmála og hagstjórn síðustu áratuga og nauðsynlegt sé að nýta nú það tækifæri sem gefst til umbóta.“ Þá segir: „Þingmannanefndin telur að mistök hafi verið gerð í hagstjórn og ríkisfjármálum á árunum frá 2003 …“

Hér er að finna mjög harðorðar ályktanir frá þingmannanefndinni í heild sinni. Ég tel ef menn setjast yfir þetta og horfa heildstætt yfir verk og ályktanir þingmannanefndarinnar þá sjái þeir að við tökum á þeim þáttum sem komið hafa fram í umræðunni og mönnum finnst ekki vera nógu skýrir.

Í lokin er í tillögunni til þingsályktunar orðalag sem allir ættu að líta til þar sem lagt er til að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu. Hér er sterkt tekið til orða.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt nú, eins og áður þegar ég hef komið í ræðustól vegna þessara mála, að vekja athygli á kafla 1.8 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem felur í sér þá hugsun að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Það er auðvelt að líta til baka og dæma söguna nú þegar við erum með miklar upplýsingar í höndum varðandi tímalínu atburða og hvað var þekkt á hinum mismunandi stöðum innan stjórnsýslunnar þegar stjórnendur tóku ákvarðanir. Við verðum alltaf að líta til baka og dæma hverja ákvörðun í ljósi þess hvernig tíminn var og hvaða upplýsingar lágu til grundvallar akkúrat á þeim tímapunkti þegar ákvörðun var tekin. Við megum ekki vera of dómhörð en við verðum samt að læra af reynslunni. Ég tel að okkur í þingmannanefndinni hafi tekist ágætlega að leggja fram þau meginviðmið, þær meginályktanir og þá meginlærdóma sem Alþingi Íslendinga þarf að draga af hruni bankanna og þeirri skýrslu sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur unnið.