138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur sem hvetur til sátta. En ef menn standa uppi í brú á skipi og einn vill fara fram hjá þessu skeri og hinn vill fara áfram í þessa átt eða hina áttina og sumir vilja fara til baka er dálítið erfitt að finna leið til sátta nema gleraugun séu svo móðukennd að menn sjái bara ekki neitt og viti ekkert hvert þeir eru að fara. Mér sýnist að það sé því miður niðurstaðan af annars mjög góðri vinnu þingmannanefndarinnar að það sem eftir stendur, eins og ég benti á hérna, er sú tillaga til þingsályktunar sem er á síðu 15. Hún er ekki einu sinni fremst, hún er á síðu 15. Hún er einhvers staðar inni á milli. Hún er það sem situr eftir, það eina sem situr eftir. Og þar er sagt, ég ætla að fá að lesa þetta, með leyfi frú forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd, viðkomandi nefndum Alþingis, stjórnlaganefnd, sbr. lög um stjórnlagaþing, nr. 90/2010, og forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar að ráðast í eftirfarandi …“

Sem sagt, Alþingi felur forsætisráðherra að ráðast í eftirfarandi:

„I. Endurskoða löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á tilgreindum atriðum …

II. Eftirfarandi rannsóknir og úttektir fari fram á vegum Alþingis …

III. Eftirlit á vegum Alþingis …“

Þetta er mótsögn, frú forseti, og sérstaklega ef maður skoðar ummæli hv. formanns nefndarinnar í framsöguræðunni fyrir málinu þar sem hann talaði um að það væri frelsisbarátta Alþingis eða eitthvað svoleiðis. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað hann sagði, að Alþingi væri að berjast fyrir frelsi sínu — gagnvart framkvæmdarvaldinu. Og það er undirstrikað aftur og aftur að Alþingi og framkvæmdarvaldið þurfi að aðskilja. Þarna er ákall frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra um að hann hjálpi okkur nú duggulítið við að semja lög.