138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ósammála efnislegum og formlegum rökstuðningi hv. þingmanns, við erum ósammála um það. Ég tel mig hafa komist að þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir í þingsályktuninni með afar faglegum hætti, eins faglegum hætti og mér var framast unnt.

Skýrsla nefndarinnar, stóra skýrslan sem er meginafurð okkar, fær mjög góða dóma fyrir vinnulag, efni, framsetningu og annað slíkt og er hrósað í bak og fyrir. Hæstv. forsætisráðherra hrósaði þessu í ræðu sinni um skýrsluna. Mér fannst því skjóta skökku við þegar hún kom hér upp í ræðu á mánudaginn var með öðrum hætti og ég er bara ósammála henni, ég er ósammála hluta af því sem hún setti fram í þeirri ræðu.