138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. minni hluta þingmn. um skýrslu RNA (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir andsvarið. Hefði hann horft á Kastljósviðtal 13. september við þá sem hér stendur hefði hann séð afstöðu mína til landsdóms og þeirra sjónarmiða sem ég hef haldið á lofti varðandi mannréttindi. Það var þannig í þingmannanefndinni og við fjölluðum talsvert um þessi mál á því tímabili frá því að nefndin tók til starfa og þangað til rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni í apríl. Við höfðum nokkra mánuði og vikur til að fjalla um málið, fengum m.a. sérfræðinga á fundi nefndarinnar sem tóku ólíka afstöðu til þess hvort sú lagaumgjörð sem gildir standist gagnvart Mannréttindastofnun Evrópu. Það hefur því legið fyrir nánast frá því að nefndin hóf störf að þetta voru atriði sem nefndin skoðaði. Við vorum ekki sammála um hvort lögin stæðust að þessu leyti. Það hefur margoft komið fram og í hvert einasta skipti sem ég hef stigið í pontu varðandi þetta mál og haldið ræðu — reyndar kem ég því ekki alltaf að í andsvörum mínum — hefur það komið fram. Ég geri þá ráð fyrir hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir geti skýrt mál sitt út fyrir hv. þm. Merði Árnasyni, finnist honum sá þingmaður ekki tala nógu skýrt, að þetta er atriði sem við höfum haft til skoðunar og gagnrýnt frá upphafi.