138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég hélt líka að nefndin hefði haft þetta til skoðunar — ítarlegrar skoðunar, og verið með þetta mál í gangi töluvert lengi, í tvo eða þrjá mánuði með öðru að sjálfsögðu, og talað við sérfræðinga um það. Suma þeirra hittum við líka í allsherjarnefnd og aðra tókum við tali í þingflokki Samfylkingarinnar einmitt um þetta efni.

Mig minnir að í fyrri ræðu hv. þingmanns í fyrri umræðu hafi hún komið inn á þetta. Ég heyrði hana ekki en ég heyrði ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sem skrifar líka undir nefndarálitið og hefur væntanlega verið samferða hv. þingmanni í þessu efni. Ég spurði hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, af því að mér fannst það óskýrt í ræðunni eða heyrði hana ekki vel — það er nú svona með heyrnina: Er það þannig að mannréttindi séu ekki virt? Er það þannig sem þetta er og landsdómur sé þess vegna ekki brúklegur?

Hv. þingmaður svaraði þannig, forseti, með leyfi:

„Ég rakti hér ummæli löglærðra manna undanfarna daga og það sem þeir hefðu sagt og tók það fram að það væri ekki skrýtið þó að við hinir ólöglærðu, við leikmennirnir, velktumst í vafa um hvað væri satt og rétt. Ég hef aldrei sagt,“ sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, „að mannréttindi væru brotin, ég sagði að lög um landsdóm og lög um ráðherraábyrgð væru í fullu gildi og eftir þeim þyrfti að fara,“ og bætti svo við til að ég skammaðist mín sem ég auðvitað gerði: „Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður legði mér ekki orð í munn og segði mig segja eitthvað annað en ég hef sagt.“

„Ég hef aldrei sagt að mannréttindi væru brotin, ég sagði að lög um landsdóm og lög um ráðherraábyrgð væru í fullu gildi og eftir þeim þyrfti að fara.“

Og spurningin er: Hvenær komust hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir eftir atvikum að annarri skoðun en hér stendur?