138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í mínum huga er þetta eitt megininntakið í ákærunni sem við ræðum í dag. Þeir hv. þingmenn sem ætla að ákæra menn fyrir að hafa gert eitthvað eða ekki gert eitthvað á þessum tíma, setja sig ekki í spor þessa tíma. Þeir setja sig ekki í spor þeirra aðila sem voru að taka ákvarðanirnar en máttu ekki segja frá raunverulegri stöðu bankanna. Örfáir menn í landinu vissu hver raunveruleg staða bankanna var. Þeir máttu ekki segja frá því því að þá hefðu bankarnir hrunið. (BVG: Ekki í trúnaði?) Ekki einu sinni — ja, það er nefnilega einmitt talið að ríkisstjórnarfundir hafi ekki verið haldnir meira að segja vegna þess að menn óttuðust lausmælgi. Menn óttuðust lausmælgi vissra ráðherra. Þeir sem nú ætla að ákæra menn fyrir að hafa gert eitthvað í þessari þröngu stöðu hafa ekki sett sjálfa sig í stöðuna fyrir hrun. Fyrir hrun var ekki vitað að yrði hrun. Ég vissi það ekki. Enginn vissi það. Hafi einhver vitað það er sá orðinn moldríkur. Hafi einhver vitað að það yrði hrun í október 2008 hefði sá annaðhvort orðið moldríkur eða hann hefði sett bankana á hausinn með því að segja frá því.

Þetta er nefnilega vandinn sem menn stóðu frammi fyrir. Heilmikið var gert, alla daga var verið reynt að finna lausnir á þessu. Það er ekki þannig að menn hafi ekki gert neitt, menn gerðu heilmikið, en þeir máttu ekki segja frá stöðunni. Svo kemur fólk núna og ætlar að ákæra menn fyrir það sem þeir gátu ekki gert.