138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:03]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður heldur áfram að hóta með því að ef nú verði gengið til verka á grundvelli rannsóknarskýrslu og þingmannanefndarskýrslu, sem komin er á borðið, muni menn hafa verra af. Þannig hefur hann það. Hv. þingmaður virðist telja í raun að lögin um landsdóm og lögin um ráðherraábyrgð eigi ekki að virða, þau eigi ekki að nota. Það eigi bara — og ég endurtek það — það eigi eingöngu að gera það ef ráðherra nánast næst á sjónvarpsmyndavél að fremja eitthvert það brot sem ekki er við hæfi eða getur valdið hættu.

Hann skýrir ekki á hvaða hátt hann telur sem þingmaður að vanrækt starfa, vanræktar embættisathafnir, stórkostlegt hirðuleysi, komi til greina eða komi aldrei til greina. Ég er ekki sammála honum um það. Ég er sammála honum um að fara eigi varlega en það á auðvitað að skoða þetta. Ráðherra á ekki bara að gera og passa sig að gera eitthvað, hann á líka að vara sig á að gera ekki neitt. Það er ekki nóg fyrir hann að efna til athafna, hann á líka að gæta að því hvar hann þarf að grípa til verka. Um það snýst málið, hvernig sem við metum það. Hér er um að ræða þannig brot, ekki þau brot að einhver hafi sparkað í einhvern eða stolið bíl eða farið úr fötunum á almannafæri.