138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég tel að okkur greini á um er hvort viðkomandi ráðherrar gátu afstýrt hættunni. Gátu þeir afstýrt hættunni? Við þekkjum dæmi frá Frakklandi þar sem ábyrgð var heimfærð á heilbrigðisráðherra. Honum var ljóst að sýkt blóð var í umferð en lét undir höfuð leggjast að skima það. Hann gat afstýrt hættunni, hann lét hjá líða að grípa til aðgerða. Hið sýkta blóð fór í umferð og olli miklum skaða og heilsutjóni. Það er dæmi um brot þar sem ráðherra gat afstýrt hættunni en gerði það ekki.

Í umræðunni hér finnst mér hafa skort dæmi um ákveðnar aðgerðir sem ljóslega hefðu getað afstýrt hættunni. Ég hef ekki sannfærst um að greining á stöðunni um vorið 2008 hefði afstýrt hættunni. Ég hef ekki sannfærst um það. Og ég hef ekki sannfærst um að ráðherrunum hafi verið kleift að draga úr stærð bankakerfisins, að raunhæft sé að gera þá kröfu til þeirra, ég hef ekki sannfærst um það. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að hér hafi verið sýndur ásetningur eða stórfellt hirðuleysi.

Um þetta allt saman erum við hv. þingmaður greinilega ósammála og það verður bara að vera þannig. Mér heyrist á hv. þingmanni að hann gerði ekki athugasemdir við að ákærur kæmu fram á hendur núverandi ríkisstjórn vegna sambærilegra brota og er að finna í þessum þingsályktunartillögum. Það kom fram í máli hans að hafi hættan verið til staðar og ekkert í henni gert og hún hafi verið svona alvarleg sé væntanlega rétt að ákæra ráðherrana. Það hefur aldrei komið fram nein hótun frá mér, ég er bara að benda á sambærilegt tilvik við það sem við ræðum hér.