138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Frá febrúar 2008 hringdu ótrúlega margar aðvörunarbjöllur um að það stefndi í mikið óefni. Fundur 7. febrúar og síðan samfelldar aðvörunarbjöllur, síðan æpandi. Það sem gerðist t.d. eftir þetta var að skuldarar hlutabréfa í bönkunum fóru undan eigin ábyrgð og stofnuðu einkahlutafélög. Fjöldi þeirra óx mikið í febrúar og mars. Stærstu eigendur bankanna og þeir sem fengu þessar innherjaupplýsingar hlupu líka frá borði eins og rotturnar gera þegar skip er að sökkva.

Eftir að þessar upplýsingar komu fram var líka haldið áfram að safna innlánum á Icesave og stofnaðir innlánsreikningar í Hollandi. Það gerðist líka sumarið 2008 að stærstu eigendur bankanna hófust handa við stórfellda sjálftöku fjár út úr bönkunum, með lánveitingum án veða. Allt þetta hefði mátt koma í veg fyrir ef gripið hefði verið til úrræða. Þetta er vanræksla sem við erum að tala um.

Tjónið af völdum hrunsins hefði að mínu mati getað orðið jafnvel helmingi minna eða enn minna en það.

Varðandi ummæli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar um viðbrögð á Alþingi vil ég benda honum á að í mars 2005 lagði Vinstri hreyfingin – grænt framboð fram ítarlega þingsályktunartillögu á hartnær 100 blaðsíðum þar sem gerð var ítarleg grein fyrir þeim hættumörkum sem voru á lofti og borið saman við kreppuna sem varð í Svíþjóð og á Norðurlöndunum. Þessi tillaga var endurflutt á hverju ári eftir það, ítarleg efnahagsleg greining, þannig að menn lásu hættumerkin, menn komu með tillögur og voru með efnahagslega og hagfræðilega greiningu.

Ég hef líka nefnt í ræðustól fleiri þingmenn sem aðvöruðu. Ég nefndi í ræðu minni hv. þm. Einar Odd Kristjánsson heitinn sem gagnrýndi Seðlabankann ítrekað hér í ræðustól og krafðist aðgerða.