138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni að ég væri mjög sáttur við þann áfellisdóm og sammála því sem kemur fram í rannsóknarnefnd Alþingis. Eitt af því sem gerir það að verkum að ég er sammála þessum áfellisdómi er það að rannsóknarnefndin kemst t.d. skýrt að þeirri niðurstöðu, finnst mér, að það var rangt að leggja hugmyndafræði aðgerðaleysis til grundvallar á frjálsum markaði á Íslandi. Það var rangt og leiddi okkur í ógöngur. Stjórnunarstíllinn í aðdraganda hrunsins bar allur keim af þessari hugmyndafræði.

Þetta er nákvæmlega þess konar pólitískt spursmál sem ég er ánægður með að rannsóknarnefnd Alþingis hefur afgreitt fyrir sína parta og vonandi meginhluta þjóðarinnar, sem sagt mér finnst ekki að svona pólitískt álitamál eigi að fara fyrir landsdóm. Nei, landsdómur er dómur sem tekur afstöðu til þess hvort eitthvað var refsivert. Og þá verðum við að taka mjög afmarkaða og skýra umræðu um t.d. tiltekið afmarkað aðgerðaleysi sem beinlínis leiddi til þess að einhver skaði var skeður. Nú er það meginþráðurinn í niðurstöðu þingmannanefndarinnar, ef ég man rétt, að ekki eigi að leggja orsakasamhengi til grundvallar í þessu þannig að það væri þá ný vídd. En á sama tíma og mér finnst allt þetta aðgerðaleysi gríðarlega ámælisvert finnst mér ekki rétt að draga þau fyrir dóm. Ég vil láta rannsóknarnefndarskýrsluna nægja í þessu.