138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:42]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði kosið að þingmaðurinn svaraði því skýrar hvað hann teldi að þyrfti til að kalla saman landsdóm fyrst það dugar ekki að aðgerðir eða aðgerðaleysi ráðamanna hafi kostað íslensku þjóðina a.m.k. 500 milljarða íslenskra króna, að ég tali nú ekki um þá 9.000–11.000 milljarða kr. sem hrunið sjálft kostaði þessa þjóð. Við náum ekki til þess alls, en hvað þarf til að mati þingmannsins fyrst þetta dugar ekki til? Og þetta er svo sannarlega refsivert athæfi ef marka má rannsóknarskýrslu Alþingis.

Síðustu sekúndurnar vil ég nota til að mótmæla öllu tali um að þingið hafi ekki fjallað um þessi mál og gert tillögur, að hér hafi ekki farið fram umræða um að stoppa það sem var að gerast. Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram frumvarp til laga um ráðstafanir í efnahagsmálum þar sem farið var yfir öll þessi atriði. Það var rætt um verðbólgu sem var farin úr böndum, skuldir heimilanna, skuldir fyrirtækja, skuldir þjóðarinnar (Forseti hringir.) o.s.frv. þar sem lagðar voru fram ítrekaðar og útlistaðar tillögur um það hvernig ætti að koma í veg fyrir þá hluti. (MÁ: Framsóknarflokkurinn gerði það líka.)