138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög góða ræðu og málefnalega. Það sem mér finnst mikilvægt í þessari ræðu er að hv. þingmaður gerir mun á því sem menn vissu fyrir hrun og því sem menn vita eftir hrun. Menn vita þó alla vega að það varð hrun, það vita menn eftir hrun. Það vissu menn ekki fyrir hrun.

Hv. þingmaður segist hafa farið í gegnum fjöldann allan af nefndarálitum og því um líku en hann fór því miður ekki nógu langt aftur í tímann því að þá hefði hann fundið í fundargerðum efnahags- og skattanefndar að 1. mars 2005 var haldinn fundur með ýmsum aðilum um hættuna af krosseignarhaldi, sem síðan hefur komið í ljós að er verulega mikill og stór þáttur í hruninu. Jafnvel ég sem fór fram á það gerði mér ekki grein fyrir hvað þetta var alvarlegt. Svo var haldinn fundur með Seðlabankanum 2007 um hættuna af jöklabréfunum, sem var reyndar dálítið minni en hefur eflaust haft mikil áhrif á þá þenslu sem varð hér í landinu fyrir hrun og hefur kannski átt ákveðinn þátt í því að það varð til.

Ég vil nefnilega undirstrika það að menn gerðu ýmislegt en það var langt í frá nægilegt. Hv. þingmenn þingflokks Vinstri grænna fluttu hér tillögu aftur og aftur en þeir fóru t.d. ekki í beinar fyrirspurnir, sem hefði mátt gera, til að fá fram það sem þeir voru að reyna að ná fram. Það er vegna þess að það gerði sér enginn grein fyrir að það yrði hrun. Ég fullyrði að það hafi bara enginn gert sér grein fyrir því, það er hvergi nokkurs staðar skjalfest.

Þetta er einmitt það sem menn eiga að gera mun á: Hefði ég eða hv. þingmaður eða einhver þingmaður hérna sem ráðherra gert eitthvað annað? Það var nefnilega heilmikið gert. Það var heilmikið gert, menn reyndu og reyndu og reyndu, það bara gekk ekki.